Gunnleifur náði stórum áfanga

Gunnleifur Gunnleifsson gómar boltann í leik KR og Breiðabliks í …
Gunnleifur Gunnleifsson gómar boltann í leik KR og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Hari

Gunnleifur Gunnleifsson, hinn 42 ára gamli markvörður og fyrirliði Breiðabliks varð í kvöld þriðji knattspyrnumaðurinn sem nær að spila 400 leiki í deildakeppninni hér á landi þegar lið hans sótti KR heim í Pepsi-deild karla.

Gunnleifur, sem hefur ekki misst úr leik í úrvalsdeildinni frá haustinu 2012 og spilað 115 leiki í röð, fetaði þar með í fótspor Gunnars Inga Valgeirssonar, sem hefur spilað 417 leiki og Marks Duffield sem spilaði nákvæmlega 400 leiki.

Af þessum 400 leikjum Gunnleifs eru 265 í úrvalsdeild og þar er hann sá sjötti leikjahæsti frá upphafi.

Gunnleifur lék fyrst með HK árið 1994, þá með KVA á Reyðarfirði og Eskifirði 1996, lék aftur með HK 1997, með KR 1998-1999, Keflavík 2000-2001, HK 2002-2009, FH 2010-2012 og með Breiðabliki frá 2013.

Þá lék hann hluta ársins 2009 með Vaduz frá Liechtenstein og spilaði 5 leiki með liðinu í svissnesku úrvalsdeildinni. Gunnleifur hefur því samtals spilað 405 deildaleiki, heima og erlendis, á 24 ára ferli í meistaraflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert