Vinnur Víkingur þriðja leikinn í röð?

Kári Árnason gæti spilað sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í …
Kári Árnason gæti spilað sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í 14 ár í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur og Keflavík eigast við í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld en flautað verður til leiks á Víkingsvelli klukkan 18.30.

Víkingar hafa unnið tvo leiki í röð og með sigri í kvöld komast þeir upp fyrir Grindvíkinga í fimmta sæti deildarinnar með 18 stig en Grindavík er með 17. Landsliðsmaðurinn Kári Árnason verður væntanlega í leikmannahópi Víkinga í fyrsta sinn í kvöld frá því hann gekk í raðir sinna gömlu félaga í sumar frá skoska liðinu Aberdeen. Kári lék síðast á Íslandsmótinu fyrir 14 árum síðan og þá með Víkingum.

Keflvíkingar hafa enn ekki unnið leik í deildinni í sumar og sitja einir og yfirgefnir á botni deildarinnar með aðeins 3 stig eftir 11 leiki. Þau tíðindi bárust úr herbúðum Suðurnesjaliðsins fyrr í vikunni að Guðlaugur Baldursson hefur látið af störfum sem þjálfari liðsins og Eysteinn Hauksson, sem hefur verið aðstoðarmaður Guðlaugs, mun stýra liðinu í fyrsta sinn í kvöld en hann var ráðinn aðalþjálfari í stað Guðlaugs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert