Stjarnan vann toppslaginn við Blika

Stjörnumenn fagna fyrsta marki leiksins.
Stjörnumenn fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Hari

Stjarnan vann afskaplega mikilvægan sigur í toppbaráttu Pepsi-deildar karla í knattspyrnu þegar Breiðablik kom í heimsókn í kvöld. Stjarnan vann 2:1 og er nú með 35 stig á toppnum, eins og Valur, og mætast liðin einmitt á miðvikudag í leik sem hafði verið frestað fyrr í sumar. Blikar eru aftur á móti í þriðja sæti með 34 stig eftir tvo tapleiki í röð.

Bæði lið fengu færi í upphafi leiks en fyrsta markið leit dagsins ljós á 25. mínútu. Hilmar Árni Halldórsson tók þá aukaspyrnu fyrir Stjörnuna, sendi hárnákvæma fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Baldur Sigurðsson skoraði með viðstöðulausu skoti í hornið. Glæsilegt mark og Stjarnan komin í 1:0.

Baldur fór svo meiddur af velli áður en fyrri hálfleikur var úti, en liðsfélagar hans létu það ekki á sig fá og komust í 2:0 á 38. mínútu. Hilmar Árni fór þá illa með vörn Breiðabliks og komst upp að endamörkum, sendi svo fyrir þar sem Þorsteinn Már Ragnarsson skóflaði boltanum í markið af stuttu færi.

Gestirnir úr Kópavoginum voru aftur á móti fljótir að svara fyrir sig og aðeins tveimur mínútum síðar minnkuðu þeir muninn. Kolbeinn Þórðarson átti þá fyrirgjöf inn á teig, Thomas Mikkelsen náði að taka boltann niður og skila honum í netið. Stjörnumönnum fannst danski framherjinn hrinda duglega frá sér í aðdraganda marksins, en markið stóð og staðan 2:1 fyrir Garðbæinga í hálfleik.

Breiðablik gerði dauðaleit að jöfnunarmarki eftir hlé en Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar lét finna vel fyrir sér og bjargaði sínum mönnum nokkrum sinnum vel. Pressan þyngdist eftir því sem leið á en allt kom fyrir ekki, Blikar náðu ekki inn öðru marki og fagnaði Stjarnan því afar mikilvægum 2:1 sigri.

Staðan á toppnum er nú þannig að Stjarnan hefur 35 stig eins og Valur, og eiga þau bæði leik til góða sem er innbyrðis viðureign þeirra á miðvikudagskvöldið kemur. Breiðablik er hins vegar með 34 stig í þriðja sætinu.

Fylgst var með gangi mála í Garðabænum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Stjarnan 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma. Spennan er mikil!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert