Sætur sigur Völsungs í toppbaráttunni

Guðmundur Óli skorar hér sigurmarkið á Húsavíkurvelli í dag.
Guðmundur Óli skorar hér sigurmarkið á Húsavíkurvelli í dag. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Völsungur vann gríðarlega mikilvægan 1:0-sigur á Kára á Húsavíkurvelli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag en bæði lið hafa verið í mikilli toppbaráttu.

Guðmundur Óli Steingrímsson skoraði sigurmark leiksins í upphafi síðari hálfleiks en eftir klukkutíma leik þyngdist róðurinn fyrir heimamenn þgear Bergur Jónmundsson var rekinn af velli. Þeir héldu þó út til að hirða stigin þrjú og skella sér þar með í fjórða sæti deildarinnar.

Völsungur er með 37 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Afturelding og Grótta eru á toppnum, bæði með 39 stig, og næst kemur lið Vestra með 38 stig. Kári situr hins vegar eftir með sárt ennið en liðið hefur áfram 35 stig og er nú í 5. sætinu.

mbl.is