KSÍ auglýsir eftir yfirmanni knattspyrnumála

Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Guðni Bergsson formaður KSÍ. mbl.is/Hari

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, auglýsir laust til umsóknar starf yfirmanns knattspyrnumála en Guðni Bergsson formaður KSÍ lýsti því yfir þegar hann tók við formennskunni í febrúar á síðasta ári að hann ætlaði sér að koma þessu starfi á laggirnar.

Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari Breiðabliks, hefur oft verið nefndur sem sá aðili sem gæti tekið við þessu starfi en Arnar starfaði á sínum tíma sem yfirmaður knattspyrnumála hjá gríska liðinu AEK og hjá Club Brügge í Belgíu. Arnar sagði í viðtali við RÚV á dögunum að hafi hafnað tilboði um að taka við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá kýpverska félaginu APOEL Nicosia.

Á vef KSÍ segir:

• Yfirmanni knattspyrnumála ber að efla faglegt starf KSÍ á knattspyrnusviði sambandsins og heyrir undir framkvæmdastjóra.

• Ábyrgur fyrir samræmingu og framþróun á vinnubrögðum við þjálfun landsliða og ber að sjá til þess að sú þekking sem er innan KSÍ nýtist íslenskri knattspyrnu sem best.

• Vinnur að því að efla faglega þekkingu og framþróun á knattspyrnusviði sambandsins þannig að sviðið standist alþjóðlegan samanburð. Umsjón og eftirfylgni með markmiðasetningu því tengdri og vinnur að nýrri afreksstefnu sambandsins

• Yfirumsjón með samskiptum við aðildarfélög sambandsins og yfirþjálfara þeirra þegar kemur að eflingu og stuðningi við þeirra faglega starf.

• Starfar með landsliðsnefndum, fræðslunefnd og mótanefnd KSÍ ásamt öðrum fastanefndum eftir atvikum.

• Tengiliður við erlend knattspyrnufélög og önnur knattspyrnusambönd ásamt UEFA og FIFA.

• Fræðsludeild innan handar við skipulagningu viðburða og útgáfu fræðsluefnis í nafni KSÍ.

• Aðkoma að áætlanagerð og skipulagningu við rekstur landsliðanna ásamt ráðningu þjálfara KSÍ.

Hæfiskröfur:

UEFA A-gráða skilyrði, UEFA Pro æskileg

Hæfni í mannlegum samskiptum

Reynsla af þjálfun og/eða stjórnun

Leiðtogahæfileikar æskilegir

Góð þekking á íslenskri knattspyrnu

Góð tölvukunnátta nauðsynleg

Góð tungumálakunnátta

Umsóknir sendist á netfangið klara@ksi.is

Umsóknarfrestur er til og með 15. nóvember 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert