„Aldrei fengið tækifæri í atvinnumennsku“

Oliver Sigurjónsson í baráttu við Skúla Jón Friðgeirsson í Pepsi-deildinni …
Oliver Sigurjónsson í baráttu við Skúla Jón Friðgeirsson í Pepsi-deildinni í sumar. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Planið er að vera áfram úti næstu árin,“ segir Oliver Sigurjónsson. Þessi 23 ára gamli knattspyrnumaður úr Breiðabliki hefur ekki átt sjö dagana sæla á sínum ferli sem atvinnumaður og aðeins leikið þrjá leiki sem slíkur.

Oliver er í dag á mála hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Bodø/Glimt. Hann kom til félagsins á miðju sumri 2017 og gerði samning sem gildir fram í júlí 2020. Oliver hefur hins vegar samtals aðeins leikið 26 mínútur í deildarleikjum með Bodø og þar eiga meiðsli stóran þátt.

Oliver fór ungur til AGF í Danmörku en fékk ekki að spila fyrir liðið og sneri aftur til Breiðabliks sumarið 2014. Hann átti svo tvö mjög góð ár með Blikum 2015 og 2016, og var einnig lánsmaður hjá liðinu og lék í Pepsi-deildinni í sumar eftir að hafa glímt við meiðsli allan síðasta vetur.

Eftir tímabilið á Íslandi hélt Oliver aftur til æfinga í Bodø í október en frá og með deginum í dag er hann svo kominn í jólafrí fram í janúar. Bodø/Glimt hafnaði í 11. sæti af 16 liðum í norsku úrvalsdeildinni en eins og staðan er núna stefnir Oliver á að spila með liðinu á næstu leiktíð, sem hefst í mars:

„Ég kem hingað aftur í janúar og æfi í janúar, febrúar og mars, og ætla mér bara að komast í byrjunarliðið. Ef að ég kemst ekki í liðið þá þarf ég að fara, bara fyrir mig svo að ég fái að spila. Það kemur bara í ljós hvernig hlutirnir verða. Sem djúpur miðjumaður fæ ég ekki mikið að koma inn á eins og kantmaður. Ég þarf að sýna að ég sé nógu góður og ef ég fæ ekki að byrja fyrstu leikina þá þarf ég bara að fara,“ segir Oliver við mbl.is. Hann útilokar sem sagt ekki að fara frá Bodø í vetur, en vonast til að vera áfram í atvinnumennsku:

Þarf að fá að spila og sýna hvað ég get

„Ef að það kemur eitthvað meira spennandi upp, sem gerir mér kleift að vera lykilmaður í liði, þá eru bæði ég og Bodø tilbúin að kíkja á það. Sem stendur þá ætla ég hins vegar bara að sýna mig í Bodø og koma mér í liðið.

Ég vil vera áfram úti. Ef að ég kæmi aftur heim þá væri það í annað sinn á mínum ferli og þá væri mjög ólíklegt að ég færi aftur út. Planið er að vera áfram úti næstu árin. Ég hef bara aldrei fengið tækifæri í atvinnumennsku. Ég er búinn að spila þrjá leiki í atvinnumennsku, hef auðvitað verið í brasi með meiðsli og svona, og ég þarf að fá að spila og sýna hvað ég get. Ég hef fulla trú á sjálfum mér.“

Oliver til varnar í leik gegn Val í sumar.
Oliver til varnar í leik gegn Val í sumar. mbl/Arnþór

„Varðandi Ísland þá getur maður aldrei sagt aldrei. En ég er líka með samning hérna svo það þyrfti að kaupa mig. Ef að það kemur ekkert út úr þessu hérna og það bíður mín eitthvað sjúklega spennandi heima þá loka ég engum dyrum, en ég vil helst vera úti,“ segir Oliver. Hann hefur rætt við þjálfara Bodø/Glimt um sína stöðu en segir aðeins eitt hafa breyst varðandi sína stöðu:

„Það eru sex leikmenn að verða samningslausir en litlar breytingar á miðjumönnum. Það helsta sem hefur breyst hvað mig varðar er að ég er heill heilsu. Ég þarf bara að vera betri en hinir. Ég var meiddur frá október og fram í mars síðasta vetur, og kom svo til Blikanna í apríl, svo ég náði ekkert að sýna mig á síðasta undirbúningstímabili. Ég hef verið heill heilsu síðan þá og mér líður rosalega vel,“ segir Oliver, sem á að baki 50 leiki fyrir yngri landslið Íslands og tvo A-landsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert