Birkir og Kári skiluðu Val og Víkingi drjúgum skildingi

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur úthlutað greiðslum til félaga þeirra leikmanna sem léku á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar.

Alls fá 416 félög greiðslu frá FIFA frá 63 knattspyrnusamböndum, samtals 209 milljónir dollara sem jafngildir 25,6 milljörðum íslenskra króna.

Valur og Víkingur Reykjavík eru einu íslensku félögin sem fá greiðslu frá FIFA. Birkir Már Sævarsson leikur með Val og Kári Árnason var skráður sem leikmaður Víkings á meðan heimsmeistaramótið fór fram en Kári spilaði engan leik með Víkingi og gekk svo í raðir tyrkneska B-deildarliðsins Genclerbirligi.

Valur fær rúmlega 118 þúsund dollara sem jafngildir um 14,5 milljónum króna og Víkingur fær rúma 79 þúsund dollara, 9,7 milljónir króna.

Listinn yfir greiðslu FIFA til félaganna

mbl.is