„Breiddin er flott og trúin er góð“

Hallgrímur klár í slaginn í dag.
Hallgrímur klár í slaginn í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hallgrímur Jónasson, fyrirliði KA í Pepsi Max-deildinni í fótbolta, var ánægður með að ná þremur stigum út úr leik KA gegn ÍBV í dag. Leikurinn var mjög lokaður og sárafá færi litu dagsins ljós. KA náði góðum spilköflum í seinni hluta síðari hálfleiks og gáfu þeir tvö mörk á fimm mínútna kafla sem gerðu út um leikinn. KA vann 2:0 en Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, varði víti og kom í veg fyrir þriðja mark KA.

Var þetta ekki erfiður leikur Hallgrímur?

„Já vissulega. Við vorum að mæta liði sem hefur ekki gengið sem skildi og við vissum að Eyjamenn yrðu þéttir. Við vissum að við þyrftum að spila okkur í gegn því þeir eru með sterka menn og stóra í vörninni. Það er dálítið erfitt að spila stutt og hratt á þessum velli. Boltinn hoppar og skoppar og það er stundum erfitt að taka á móti honum. Þetta gat orðið þolinmæðisvinna. Við vorum ekki að skapa nein alvöru færi fyrstu sextíu mínúturnar en svo kom þetta í lokin. Þá fengum við þrjú dauðafæri og víti. Tvö mörk úr því var ásættanlegt í dag.“

Eins og þú segir þá var unnið áfram með það plan sem lagt var upp með. Það var engin örvænting farin að grípa um sig. Þið áttuð mjög góða spilkafla áður en fyrra markið kom. Það skilaði loks færum og skömmu fyrir markið komst Steinþór í algjört dauðafæri.

„Við töluðum mikið um það að þetta gæti orðið þolinmæðisvinna og við ættum ekki að örvænta heldur halda okkur við okkar stíl. Möguleikar á sigri myndu bara minnka með löngum og háum boltum. Við náðum mjög góðum tökum á leiknum seinni hluta síðari hálfleiks. Ég neita því ekki að það var að koma smá pirringur í menn hjá okkur. Sem betur fer þá kom loks mark og þá urðum við strax rólegri. Þeir sem að komu inná stóðu sig vel og breyttu leiknum. Nökkvi skorar og fær víti og Steinþór var stórhættulegur. Þetta var frábær innkoma hjá þeim og sýnir líka að þó að það séu nokkrir meiddir hjá okkur í dag þá eru menn af bekknum að breyta leiknum. Breiddin er flott og trúin er góð og við erum komnir í níu stig sem er ánægjulegt.“

Þú sem varnarmaður hlýtur svo að vera ánægður með að halda hreinu, annan leikinn í röð.

„Jú auðvitað. Við gáfum eitt færi í dag, að mér fannst. Við misstum okkur aðeins eftir langan bolta fram völlinn. Annars fannst mér við vera traustir,“ sagði Haddi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert