Ég er rétt að byrja maður

Gunnleifur Gunnleifsson í metleiknum gegn FH í dag.
Gunnleifur Gunnleifsson í metleiknum gegn FH í dag. mbl.is/Hari

Markmaðurinn Gunnleifur Gunnleifsson varð í dag leikjahæsti leikmaður­inn í deilda­keppn­inni í knatt­spyrnu á Íslandi. Hann lék sinn 424. leik á Íslandsmóti meistaraflokks er hann stóð í markinu í glæsilegum 4:1-sigri á FH í Pepsi Max-deildinni. Fyrir vikið fór Breiðablik í toppsætið. 

„Öllu skiptir að vinna leikinn og að þetta skuli vera tímamótaleikur fyrir mig er auðvitað gott að fá sigurleik. Ég er ótrúlega stoltur af mér og liðsfélögunum líka. Þrátt fyrir metið er ég enn að fá fiðrildi í magann í hvert skipti sem ég vinn fótboltaleiki,“ sagði Gunnleifur kátur í samtali við mbl.is eftir leik. 

Staðan eftir jafnan fyrri hálfleik var markalaus, en Breiðablik sýndi allar sínu bestu hliðar í seinni hálfleik og keyrðu yfir FH-inga. 

„Auðvitað er FH-liðið frábært og við þurftum að hafa allt á hreinu en mér fannst við ná að hlaupa meira en þeir í seinni hálfleik. Þeir voru orðnir þreyttir, en það má aldrei vanmeta FH. Við keyrðum á þá og við erum með frábæra leikmenn fram á við, sem til baka. Við erum með gott lið.

Það er gott sjálfstraust og góður andi. Við vorum ekkert rosalega ánægðir með frammistöðuna í fyrstu leikjunum en svo höfum við verið að safna stigum. Síðasti leikurinn gegn Val var frábær og í dag var þetta frábær frammistaða og bikarleikurinn inn á milli var góður. Við erum mjög ánægðir með að fara í fríið í þessum takti.“

Gunnleifur verður 44 ára gamall í júlí, en hann ætlar að halda áfram að bæta metið. „Ég er rétt að byrja maður,“ sagði Gunnleifur brosandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert