Gunnleifur setur Íslandsmet

Gunnleifur Gunnleifsson hefur leikið fleiri leiki en nokkur annar á …
Gunnleifur Gunnleifsson hefur leikið fleiri leiki en nokkur annar á Íslandsmóti meistaraflokks í knattspyrnu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, er orðinn leikjahæsti leikmaðurinn í deildakeppninni í knattspyrnu á Íslandi. Gunnleifur ver mark Kópavogsliðsins í leiknum við FH í úrvalsdeildinni, sem er nýhafinn á Kópavogsvelli, og þar með er metið fallið.

Gunnleifur, sem verður 44 ára gamall í júlí, leikur í dag sinn 424. leik á Íslandsmóti meistaraflokks og slær leikjametið sem var í eigu Gunnars Inga Valgeirssonar frá Hornafirði. Gunnar lék sinn 423. leik á árinu 2018, með Sindra í 3. deildinni, þá fimmtugur að aldri, en hann hefur ekkert spilað á þessu keppnistímabili. Aðeins einn til viðbótar hefur náð 400 leikjum á Íslandsmótinu en það er Mark Duffield sem lagði skóna á hilluna haustið 2006 eftir að hafa spilað sinn 400. leik.

Gunnleifur Gunnleifsson með Íslandsbikarinn sem FH-ingur árið 2012.
Gunnleifur Gunnleifsson með Íslandsbikarinn sem FH-ingur árið 2012. mbl.is/Golli


Þetta er 25. ár Gunnleifs í meistaraflokki en hann lék fyrst með HK árið 1994, í næstefstu deild. Hann spilaði ekkert árið eftir, var þá með handknattleik sem sína aðalíþrótt, en frá og með 1996 hefur hann leikið samfleytt á Íslandsmótinu.

Gunnleifur Gunnleifsson gómar boltann af höfðinu á Cristiano Ronaldo í …
Gunnleifur Gunnleifsson gómar boltann af höfðinu á Cristiano Ronaldo í landsleik gegn Portúgal. mbl.is/Golli


Hann á nú að baki 289 leiki í efstu deild, með KR, Keflavík, HK, FH og Breiðabliki, og er þar fjórði leikjahæstur frá upphafi. Þá hefur Gunnleifur spilað 83 leiki í 1. deild, 36 leiki í 2. deild og 16 leiki í þriðju deild. Hann lék með HK 1994, 1997 og 2002 til 2009, með KVA á Reyðarfirði og Eskifirði 1996, með KR 1998-1999, með Keflavík 2000-2001, með FH 2010 til 2012 og með Breiðabliki frá 2013. Þá lék Gunnleifur í nokkra mánuði með Vaduz frá Liechtenstein í efstu deild í Sviss árið 2009.

Gunnleifur Gunnleifsson sem markvörður HK í úrvalsdeildinni árið 2008.
Gunnleifur Gunnleifsson sem markvörður HK í úrvalsdeildinni árið 2008. mbl.is/hag


Gunnleifur er kominn í áttunda sætið hjá Breiðabliki yfir leikjahæstu leikmenn félagsins í efstu deild frá upphafi, gæti komist í annað eða þriðja sætið áður en þessu tímabili lýkur, og hann á leikjamet HK í deildinni. Hann hefur orðið Íslandsmeistari með KR (1999) og FH (2012) og bikarmeistari með KR (1999) og FH (2010). Gunnleifur lék 26 A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 2000 til 2014 og var síðast varamarkvörður landsliðsins í undankeppninni fyrir EM 2016.

mbl.is