Hendrickx er farinn – „Ég stóð við mitt“

Jonathan Hendrickx og Eyjamaðurinn Felix Örn Friðriksson berjast um boltann.
Jonathan Hendrickx og Eyjamaðurinn Felix Örn Friðriksson berjast um boltann. mbl.is/Árni Sæberg

Jonathan Hendrickx spilaði sinn síðasta leik fyrir Breiðablik þegar liðið vann 3:1-sigur á ÍBV í 10. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í dag. Hann segir það blendnar tilfinningar að yfirgefa félagið, en að sig hafi langað heim til Belgíu í svolítinn tíma.

„Ég vildi kveðja með sigri. Í byrjun leiksins hugsaði ég með mér: Fjandinn, þetta mun verð erfitt. En við vorum miklu betri í seinni hálfleik,“ sagði Hendrickx við mbl.is í leikslok, en Blikar lentu undir gegn Eyjamönnum áður en þeir sneru taflinu við og unnu leikinn.

Í byrjun júní var tilkynnt að Hendrickx hefði verið seldur til Lommel, sem leikur í belgísku B-deildinni, en að hann myndi spila með liðinu fram að félagaskiptaglugganum í júlí. Blikar eiga enn eftir að spila gegn Fylki í bikarnum fyrir mánaðarmót, en hleyptu Hendrickx fyrr burt.

„Þetta eru blendnar tilfinningar. Ég er mjög spenntur fyrir nýrri áskorun en á sama tíma naut ég mín hér hjá Breiðabliki. Það er erfitt að kveðja þegar þú átt góða vini hér og ert vel metinn. Ég er því bæði glaður að fá nýtt tækifæri en leiður á sama tíma að kveðja,“ sagði Hendrickx.

Hef beðið eftir tækifæri til að fara heim

Á meðan blaðamaður ræddi við Hendrickx sungu stuðningsmenn Breiðabliks nafnið hans í stúkunni.

„Það er alltaf góð tilfinning og ég mun sakna þeirra. En stundum er þetta svona í fótboltanum, þú þarft að hugsa um sjálfan þig þegar þú færð gott tækifæri. Ég hef viljað fara í svolítinn tíma því ég fékk tækifæri að fara til spennandi félags,“ sagði Hendrickx, en sagði að það hefði aldrei verið nein illindi milli sín og Breiðabliks.

„Síðustu tvö, þrjú ár hef ég viljað fara heim að spila og beðið eftir tækifæri til þess eftir að hafa spilað erlendis í sjö ár. Blikarnir hafa verið mér mjög góðir eftir að tækifærið kom, þeir skildu mína afstöðu og að mínar heimaslóðir eru í Belgíu. Ísland er mitt annað heimili og ég hef alltaf lagt mig allan fram. En ég hef verið svolítið þreyttur í síðustu þremur leikjum eða svo því ég vissi að ég væri alveg að fara,“ sagði Hendrickx.

Hann byrjar að æfa með Lommel strax á mánudagsmorgun, en kveður Blika í toppsætinu.

„Það var alltaf markmiðið. Ég talaði við Gústa [Ágúst Gylfason, þjálfara] sem bað mig um að hjálpa sér að ná í það minnsta 20 stig áður en ég færi. Við erum með 22 stig núna, svo ég stóð við mitt,“ sagði Jonathan Hendrickx, en hann kom til Breiðabliks fyr­ir tíma­bilið 2018 eft­ir að hafa áður spilað hér á landi með FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert