Ekki alltaf betra fótboltaliðið sem fer áfram

Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks.
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta voru sanngjörn úrslit og nú verður bara barátta eftir viku. Þar þurfum við að skora og ef við gerum það þá held ég að við förum áfram,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is eftir markalaust jafntefli við Vaduz frá Liechtenstein í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við vorum ágætlega sáttir við okkar frammistöðu varnarlega þar sem við vorum þéttir fyrir og náðum að halda markinu hreinu. Mér fannst þetta mjög taktískur leikur í báðar áttir, við vissum að þetta er gott fótboltalið sem getur haldið boltanum vel en mér fannst þeir ekki opna okkur mikið á hættusvæðum. Það komu ákveðin tækifæri hjá okkur að vinna boltann á hættulegum svæðum og sækja meira beint á þá og refsa þeim þannig. Við vorum líka grimmir í föstum leikatriðum,“ sagði Ágúst.

En var hann ósáttur að ná ekki að skora á heimavelli og þurfa því í raun að sækja úti?

„Auðvitað er maður ósáttur að ná ekki marki, en þetta var frekar lokaður leikur og ekki mikið af tækifærum. Hann var samt ágætlega spilaður og mjög taktískur. En það er léttir að halda markinu hreinu,“ sagði Ágúst, sem sagði ekkert hafa komið á óvart í leik Vaduz.

„Í raun ekki. Við vorum búnir að fara vel yfir þá, vissum að þeir halda boltanum vel og við ætluðum að loka vel á þá. Mér fannst við gera það nokkuð vel, þó þeir hafi skapað sér nokkur færi eins og við. En heilt yfir sanngjörn úrslit.

Liðin mætast í Liechtenstein eftir viku. Mark fyrir Blika getur vegið þungt á útivelli. Mun Ágúst sækja til sigurs?

„Við ætlum allavega að sækja á markið og fá tækifæri til að skora. Við verðum að nýta þau færi sem við fáum, en á móti ætlum við líka að vera þolinmóðir og skipulagðir. Við þekkjum þessa Evrópukeppni að það er ekki endilega betra fótboltaliðið sem vinnur leikina, heldur liðið sem skorar fleiri mörk,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert