Eigum kannski möguleika enn þá

Thomas Mikkelsen hefur gert átta mörk fyrir Breiðablik í ár.
Thomas Mikkelsen hefur gert átta mörk fyrir Breiðablik í ár. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Danski framherjinn Thomas Mikkelsen er orðinn næstmarkahæstur í úrvalsdeild karla í fótbolta eftir að hafa skorað tvö mörk í 4:0 sigri Breiðabliks á KA á Kópavogsvellinum í kvöld.

Hann hefur nú skorað átta mörk í fjórtán leikjum Breiðabliks sem styrkti stöðu sína í öðru sæti deildarinnar. Mikkelsen sagði við mbl.is að það hefði verið afar mikilvægt að spila vel í kvöld og vinna en Blikar höfðu aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum sínum.

„Já, þetta var gríðarlega mikilvægur sigur, og við þurftum að snúa blaðinu virkilega vel í dag, berjast hver fyrir annan, hlaupa hver fyrir annan, og allir gerðu það. Við skoruðum líka úr færunum okkar í dag og það gerði útslagið miðað við síðustu leiki.

Ég held að við höfum spilað vel í dag, mun betur en að undanförnu. Alfons kom inn sem hægri bakvörður og hann virðist vera virkilega góður. Ég held að þetta gefi fyrirheit um að við eigum eftir að spila vel í næstu leikjum. Vörnin var mjög góð í dag, við héldum markinu hreinu en það höfðum við ekki náð að gera í nokkurn tíma,“ sagði framherjinn.

Guðjón Pétur Lýðsson átti glæsilega sendingu á þig í þriðja markinu. Það er væntanlega ekki slæmt að hafa mann með slíka sendingatækni fyrir aftan sig?

„Já, Guðjón er virkilega góður í að finna svæðin sem ég hleyp í, hann lék mjög vel í dag en mér finnst hann líka vera búinn að vera góður með okkur allt tímabilið.“

Nú eruð þið tíu stigum á eftir KR-ingum. Er enn mögulegt að ná þeim og vinna titilinn?

„Tja, það virðist mjög erfitt, en kannski eigum við möguleika ef við vinnum alla leikina sem eftir eru. En við hugsum bara um einn leik í einu og sjáum til hvað það gefur okkur,“ sagði Thomas Mikkelsen sem hefur skorað þrjú af átta mörkum sínum gegn KA en hann  gerði sigurmark Breiðabliks í leik liðanna fyrir norðan í vor, 1:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert