Þurfum og ætlum að vinna alla leiki

„Ég er ekki búin að skora í nokkrum leikjum svo það var gott að skora,“ sagði Agla María Albertsdóttir þegar mbl.is ræddi við hana í Sarajevó eftir 4:1-sigur Breiðabliks á ASA Tel Aviv frá Ísrael í fyrsta leik Blika í undanriðli Meistaradeildar Evrópu í dag.

Agla María skoraði tvö mörk og lagði upp eitt, en þetta var fyrsti leikur liðsins af þremur þar sem efsta liðið að riðlinum loknum kemst í 32ja liða úrslit keppninnar.

„Það er mjög gott að byrja þetta á sigri. Við þurfum að vinna alla leiki til þess að komast áfram og við ætlum að gera það,“ sagði Agla María, en gríðarlegur hiti er í Bosníu. Hvernig var að spila við þær aðstæður?

„Það var ótrúlega erfitt, sérstaklega þegar maður var að taka spretti. Um leið og búið var að taka einn sprett þurfti maður að ná sér smá og bíða áður en hægt var að taka aftur,“ sagði Agla María, en hvernig fannst henni meistaraliðið frá Ísrael?

„Þær voru bara fínar og áttu skot í slá og stöng og svona. Þetta er alveg gott lið, en við erum með betra,“ sagði Agla María Albertsdóttir við mbl.is í Sarajevó, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert