Ég hefði getað skorað þrjú mörk

Breiðablik fagnar jöfnunarmarkinu í blálokin.
Breiðablik fagnar jöfnunarmarkinu í blálokin. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Antonsdóttir, leikmaður Breiðabliks, var ósátt við úrslitin í kvöld þegar lið hennar gerði 1:1-jafntefli við Val í æsispennandi leik í næstsíðustu umferð Pepsi max deildar kvenna í fótbolta. Breiðablik þurfti a.m.k. jafntefli í leiknum til að eiga enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en Valsmenn leiddu með tveimur stigum fyrir leikinn og gera enn.

Hún hafði sitt að segja um leikinn. „Við fórum auðvitað inn í þennan leik til að vinna og mér fannst við alveg léttilega geta gert það ef við nýttum færin okkar. Ég hefði til dæmis getað skorað þrjú mörk og sérstaklega í byrjun leiksins þegar ég fékk mjög gott færi og ég sé eftir því núna að hafa ekki skorað. Við náðum að skapa fullt af færum í fyrri hálfleik á meðan þær áttu eitt skot á mark og skoruðu. Mér fannst þær ekki skapa mikið og við vorum með yfirhöndina í leiknum allan tímann.“

„Leikur okkar hér í kvöld var eiginlega eins og þetta er búið að vera í allt sumar, við erum meira með boltann og komum boltanum út á kantana og fyrir markið en náum ekki að skora. Vanalega náum við að setja einhver mörk og redda okkur, en við getum ekki gert það á móti svona liði. Við vildum alveg fá þrjú stig en við tókum alveg þessu eina stigi til að sleppa við það að þær færu að fagna hér á okkar heimavelli,“ sagði Hildur.

„Það er alveg séns enn þá og þetta er ekki alveg búið, við sjáum bara til hvernig þetta fer að lokum. Við eigum svo eftir að fara til Prag og spila þar og mér finnst við eiga góða möguleika þar,“ sagði Hildur.

Síðasta umferð Íslandsmótsins er næstkomandi laugardag en Blikar mæta Fylki á útivelli á meðan Valsarar spila á móti föllnum Keflvíkingum á heimavelli. Blikar leggja svo land undir fót og spila við Sparta Prag í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna 26. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert