Meistarar síðasta árs í sjötta sæti

Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttunni við Ásgeir Börk Ásgeirsson í …
Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttunni við Ásgeir Börk Ásgeirsson í Kórnum í Kópavogi í júlí. mbl.is/Hari

Íslandsmeistarar Vals frá síðustu leiktíð enda í sjötta sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, en þetta varð ljóst eftir 2:0-sigur liðsins gegn HK á Origo-vellinum á Hlíðarenda í lokaumferð deildarinnar í dag. Andri Adolphsson og Patrick Pedersen skoruðu mörk Vals í leiknum en þau komu bæði í fyrri hálfleik.

Valsmenn byrjuðu leikinn ágætlega og áttu tvær ágætis marktilraunir á fyrstu fimm mínútum leiksins en tókst ekki að hitta rammann. Eftir þetta tóku HK-ingar yfir leikinn og bæði Bjarni Gunnarsson og Arnþór Ari Atlason áttu góðar skottilraunir fyrir utan teig sem Hannes Þór Halldórsson í marki Valsmanna varði vel. Á 10. mínútu átti Birnir Snær Ingason þrumuskot að marki Valsmanna sem Hannes varði til hliðar. Frákastið hrökk til Bjarna Gunn en skot hans fyrir opnu marki var meistaralega varið af Hannesi. Valsmenn voru fjótir að refsa og á 17. mínútu kom lagleg sending úr djúpinu inn fyrir á Andra Adolphsson sem vippaði meistaralega yfir Arnar Frey Ólafsson í marki HK-inga og staðan orðin 1:0.

HK-ingar virkuðu slegnir eftir markið og það tók þá smátíma að ná áttum á nýjan leik. Arnþór Ari Atlason var nálægt því að jafna fyrir HK á 36. mínútu þegar Ásgeir Marteinsson sendi fyrir markið en Arnþór rétt missti af boltanum. Aftur refsuðu Valsmenn því á 45. mínútu tapaði Björn Berg Bryde boltanum klaufalega. Kristinn Freyr Sigurðsson sendi Sigurð Egil Lárusson í gegn og hann lagði boltann fyrir Patrick Pedersen sem var einn gegn nánast opnu marki. Pedersen gerði engin mistök, skoraði og Valsmenn leiddu því með tveimur mörkum gegn engu í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað. Patrick Pedersen fékk fyrsta alvörufærið í seinni hálfleik þegar hann átti fast skot úr teignum en Arnar Freyr varði virkilega vel frá honum. Báðum liðum gekk illa að skapa sér afgerandi marktækifæri en á 65. mínútu átti Haukur Páll Sigurðsson flottan skalla eftir hornspyrnu sem Arnar Freyr varði meistaralega. Skömmu síðar var Guðmundur Þór Júlíusson, leikmaður HK og titlaður aðstoðarþjálfari HK á skýrslu, rekinn upp í stúku fyrir mótmæli. Hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir þetta og leikurinn fjaraði hægt og rólega út og Valsmenn fögnuðu sigri.

Valur lýkur keppni í sjötta sæti deildarinnar með 29 stig, tveimur stigum minna en KA, sem endar í fimmta sætinu. Nýliðar HK ljúka hins vegar keppni í níunda sæti deildarinnar með 27 stig, jafn mörg stig og Skagamenn, sem voru einnig nýliðar í deildinni í sumar.

Valur 2:0 HK opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:0-sigri Vals.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert