Meistararnir unnu lokaleikinn

Kolbeinn Þórðarson í baráttunni við Kennie Chopart og Arnþór Inga …
Kolbeinn Þórðarson í baráttunni við Kennie Chopart og Arnþór Inga Kristinsson í elleftu umferð deildarinnar í júlí. mbl.is/Arnþór Birkisson

Íslandsmeistarar KR luku keppni í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu karla með sigri á Breiðabliki í rjómabliðu á Kópavogsvelli í dag, 2:1. KR lauk þar með keppni  með 52 stig, 14 stigum meira en Breiðablik sem hafnaði í öðru. KR-ingar skoruðu bæði mörk sín í fyrri hálfleik en viðureignina á Kópavogsvelli var fremur bragðdauf enda ekki mikið í húfi hjá liðunum.

Það var ekki neitt undir nema stoltið í lokaleik tveggja eftstu liða deildarinnar, KR og Breiðabliks, á Kópavogsvelli. Staða liðanna var ljós og það fyrir nokkru. Nýkrýndir Íslandsmeistarar KR gáfu hinsvegar ekkert eftir og þjálfari þeirra, Rúnar Kristinsson, sendi ákveðin skilaboð með því að senda sína vöskustu sveit til leik. Hann gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliðinu frá síðasta leik og þá breytingu varð hann að gera tilneyddur vegna leikbanns Skúla Jóns Friðgeirssonar.

Leikurinn fór rólega af stað á Kópavogsvelli. Framan af  voru þó heimamenn líklegri til að skora án þess þó að skapa sér veruleg færi. Íslandsmeistararnir sýndu hinsvegar styrk sinn þegar á leið. Kennie Chopart skoraði á 24. mínútu eftir vel útfærða hornspyrnu. Aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Kristján Flóki Finnbogason forskot KR. Það sem eftir lifði hálfleiksins voru KR-ingar líklegri til að bæta við mörkum en Breiðabliksmenn að klóra í bakkann.

Fremur rólegt var yfir leiknum lengst af síðari hálfleiks. Breiðabliksmenn hresstust þegar á leið og færðu sig um leið upp á skaftið. Thomas Mikkelsen minnkaði muninn úr vítaspyrnu á 86. Mínútu sem hann vann sjálfur eftir að Beitir Ólafsson var talinn hafa hindrað för Danans innan vítateigs. Mikkelsen fékk skömmu síðar möguleika á að jafna metin en þá sá Beitir við honum.

Breiðablik 1:2 KR opna loka
90. mín. Kristian Nökkvi Hlynsson (Breiðablik) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert