Flæmskan ákveðið vandamál á heimilinu

Ari Freyr Skúlason er ánægður með lífið í Belgíu þessa …
Ari Freyr Skúlason er ánægður með lífið í Belgíu þessa dagana. mbl.is/Hari

„Þetta verkefni gegn Frökkum leggst mjög vel í mig,“ sagði Ari Freyr Skúlason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is, á æfingu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær. Íslenska liðið tekur á móti heimsmeisturum Frakka á föstudaginn kemur í undankeppni EM 2020 en Ísland er í þriðja sæti H-riðils með 12 stig, þremur stigum minna en topplið Tyrklands og Frakklands.

„Þetta eru tveir heimaleikir og það stefnir í troðfullan völl með frábærum stuðningi þannig að ég tel möguleika okkar nokkuð góða gegn þeim. Við erum búnir að taka einhverja fundi en þetta er okkar heimavöllur og við eigum að halda okkur við okkar kerfi. Það hafa fleiri stórlið komið hingað áður og ætlað að labba yfir okkur en farið burt með núll stig. Við höfum bullandi trú á þessu og við ætlum okkur á EM.“

Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar og íslenska liðið þarf því að eiga algjöran toppleik ef liðið ætlar sér sigur á föstudaginn.

„Númer eitt tvö og þrjú þá þurfum við að eiga algjöran toppleik ef við ætlum okkur að leggja Frakka að velli. Það kom smá bakslag í þetta hjá okkur í síðasta leik gegn Albaníu en að sama skapi er þetta enn þá í okkar höndum. Ef við höldum haus, spilum okkar leik og höldum skipulagi þá tel ég möguleika okkar nokkuð góða að taka annaðhvort stig eða þrjú stig. Við viljum taka 4-6 stig úr næstu tveimur leikjum og toppliðin tvö eiga bæði erfiða leiki eftir líka. Frakkland á eftir að spila við Tyrkland og vonandi getum við jafnað Frakkana að stigum og sett smá pressu á þá.“

Ari Freyr Skúlason hefur eignað sér vinstri bakvarðarstöðuna í undankeppni …
Ari Freyr Skúlason hefur eignað sér vinstri bakvarðarstöðuna í undankeppni EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt annað líf

Ari Freyr gekk til liðs við belgíska 1. deildarliðið KV Oostende í sumar eftir þrjú ár í herbúðum Lokeren þar sem allt hefur verið á niðurleið undanfarin tvö tímabil.

„Það hefur gengið mjög vel hjá mér úti í Belgíu hjá KV Oostende og mér líður vel. Það er smá munur að vera kominn þangað eftir dvölina hjá mínu gamla félagi sem er enn þá í smá vandræðum. Það er þægilegt að vera kominn í annað umhverfi og þótt maður hafi gert sitt besta til að reyna að einbeita sér bara að fótboltanum þá var helvíti mikið í gangi í kringum félagið sem var erfitt að leiða hjá sér. Núverandi þjálfari minn hjá KV Oostende, Käre Hedley Ingebrigtsen, er frá Noregi og hann er mjög róleg týpa. Við erum með sjálfstraust þessa dagana og það er gott að vera með þjálfara sem tekur hlutunum með ró. Að sama skapi hefur mér alltaf liðið mjög vel í Belgíu, þrátt fyrir þetta bull í kringum fótboltann. Börnin mín tala reiprennandi flæmsku og stærsta vandamálið er að þau tala of mikla flæmsku. Við eigum góða vini utan fótboltans og þetta gæti ekki verið betra,“ sagði Ari Freyr í samtali við mbl.is.

mbl.is