Öruggur sigur Blika gegn Gróttu

Höskuldur Gunnlaugsson og Viktor Karl Einarsson í baráttunni við Bjarka …
Höskuldur Gunnlaugsson og Viktor Karl Einarsson í baráttunni við Bjarka Leósson á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik hafði betur gegn nýliðum Gróttu 3:0 í fyrstu umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld. 

Gróttumenn eru nýliðar í deildinni eftir að hafa unnið sig upp um deild tvö ár í röð en þeir leika nú í deild þeirra bestu í fyrsta sinn í sögu félagsins. Þeir voru óöruggir og spennustigið var skiljanlega hátt. 

Blikar höfðu góð tök á leiknum og náðu forystunni á 19. mínútu þegar Viktor Karl Einarsson skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf Brynjólfs frá vinstri. Staðan var 1:0 að loknum fyrri hálfleik en þá höfðu tvö mörk verið dæmd af Dananum Thomasi Mikkelsen vegna rangstöðu. Munurinn hefði hæglega getað verði meiri því Blikarnir voru hættulegir. Hákon Rafn Valdimarsson stóð hins vegar fyrir sínu í marki Gróttu og varði tvívegis frá Blikum í mjög góðum færum í fyrri hálfleik. 

Í síðari hálfleik skoraði Mikkelsen loks af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Andra frá hægri. Hann hafði þá áður bætt við þriðja „rangstöðumarkinu“ en í því tilfelli var dómurinn augljóslega réttur. Það var ekki eins augljóst í fyrri tilvikunum tveimur. 

Erfiðleikar nýliðanna minnkuðu ekki á 61. mínútu þegar miðvörðurinn Arnar Þór Helgason fékk sitt annað gula spjald og þar með brottvísun. 

Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins.
Leikmenn Breiðabliks fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seltirningar létu þó ekki valta yfir sig tíu á móti ellefu og náðu að skapa sér tvö ágæt færi. Varamaðurinn Kristinn Steindórsson innsiglaði hins vegar sigurinn í uppbótartíma með fallegu skoti með vinstri fæti upp í hornið hægra megin. Hans fyrsta mark á Íslandsmótinu síðan 2011. 

Breiðablik hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar í fyrra en var þó 14 stigum á eftir Íslandsmeisturum KR. Síðan þá hefur liðið skipt um þjálfara; Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfar Breiðablik í sumar, en það var einmitt hann sem kom Gróttu upp í úrvalsdeild í fyrra.

Ágúst Gylfason tók við stjórnartaumnum á Seltjarnarnesinu sem er ekki síður áhugavert, enda þjálfaði hann Breiðablik á síðustu leiktíð.

Ógnandi á hægri kantinum

Blikarnir sýndu að þeir geta sótt hratt og eru stórhættulegir þegar þeim tekst vel upp. Þeir fengu hins vegar töluverðan tíma til að athafna sig í kvöld og hefðu fyrir vikið getað skorað mun fleiri mörk. Sóknirnar voru einnig nokkuð fjölbreyttar því Blikar áttu það til að reyna stungusendingar úr öftustu línu sem setti pressu á miðverði Gróttu. Sérstaklega til að byrja með í leiknum og þá voru Seltirningar yfirspenntir enda í aðstæðum sem þeir þekkja ekki. Einungis tveir þeirra höfðu leikið í efstu deild þar til í kvöld, samtals sjö leiki. 

Mikkelsen og Brynjólfur fengu mörg marktækifæri í kvöld. Brynjólfi gekk ill að nýta þau en átti þó eina stoðsendingu. Mikkelsen skoraði fjórum sinnum eins og áður segir en aðeins eitt þeirra fékk að standa. 

Blikarnir voru mjög hættulegir þegar þeir sóttu fram hægra megin en þar voru Viktor Karl og Andri Rafn mjög virkir en Andri var í bakvarðastöðunni í kvöld en er öllu þekktari sem miðtengiliður. Gísli gerði oft mjög vel á miðsvæðinu þegar hann fékk boltann og hann gæti orðið mjög góður í sumar. Í leikmannahópi Breiðabliks eru mörg vopn og á bekknum biðu til að mynda Guðjón Pétur og Kristinn sem nýtti tækifærið og skoraði. 

Smárinn ekki auðveldasti staðurinn til að ná í stig

Fyrir nýliðana frá Seltjarnarnesi er ágætt að vera búnir með fyrsta leikinn. Útileikur á móti liði sem hafnað hefur í 2. sæti síðustu tvö árin. Ekki er það leikur sem Grótta býst við því að ná í stig og ekkert verra að ná þar úr sér hrollinum. Ljósi punkturinn hjá Gróttu var frammistaða Hákons í markinu en hann var besti maður vallarins. Varði nokkrum sinnum mjög vel og verður ekki sakaður um mörkin. 

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getumunurinn á liðunum var mikill en skynsamlegra verður að fella dóma yfir Gróttuliðinu eftir nokkra leiki þegar leikmenn eru orðnir aðeins rólegri. Næsta verkefni þeirra verður heldur ekki auðvelt en þá mæta þeir Valsmönnum. Ef byrjun liðsins í deildinni verður mjög erfið þurfa Ágúst Gylfason og Guðmundur Steinarsson að nýta reynslu sína og klókindi til að lítt reyndir leikmenn þeirri missi ekki sjálfstraustið. 

Miðverðirnir eru hávaxnir og spurning hvort Ágúst geti fundið leiðir til að nýta það í föstum leikatriðum. Andri Þór fékk þó rauða spjaldið í kvöld og er því á leið í bann en hann hafði bjargað nokkrum sinnum vel fram að því. 

Viktor Karl Einarsson skoraði fyrsta mark Blika í deildinni í …
Viktor Karl Einarsson skoraði fyrsta mark Blika í deildinni í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Breiðablik 3:0 Grótta opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert