Spurning sem erfitt er að svara

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er stoltur af mínum mönnum,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í Kópavogi í kvöld.

„Við byrjuðum ekkert sérstaklega vel en þegar mesti skjálftinn var farinn úr okkur eftir fyrstu tuttugu mínúturnar og okkur tókst að laga krummafótinn fannst mér við töluvert sterkari. Ég er bæði ánægður með liðið og spilamennskuna en ekkert sérstaklega ánægður með úrslitin.

Við þurftum að gera ákveðna breytingar á liðinu vegna meiðsla en hópurinn sem við erum með er sterkur og Alexander Helgi kom sterkur inn í hálfleik sem dæmi og það kemur maður í manns stað.“

Breiðablik er án sigurs í síðustu fjórum leikjum sínum og Óskar Hraf viðurkennir að hann sé ekki ánægður með úrslit síðustu leikja.

„Ég er ekki ánægður með úrslitin í síðustu leikjunum en ég er ánægður með frammistöðuna gegn FH sem dæmi og gegn Val. Ég er ekki ánægður með frammistöðuna gegn KR en þokkalega sáttur með KA-leikinn.

Við þurfum að passa okkur á því að festast ekki í því að einblína of mikið á stigin á þessum tímapunkti. Við svöruðum þessum KR-leik vel í dag fannst mér og það er mikilvægt.“

Thomas Mikkelsen í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld.
Thomas Mikkelsen í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Gerist ekki á einni nóttu

Óskar Hrafn er að reyna innleiða ákveðna hugmyndafræði í Kópavogi og þjálfarinn viðurkennir að það muni taka tíma.

„Stundum líður manni eins og við séum komnir vel á veg og stundum líður mannsi eins og við séum á byrjunarreit. Við erum að reyna innleiða ákveðnar áherslur og það er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu.

Leikmennirnir hafa brugðist vel við því sem við erum að reyna gera. Þeir hafa lagt sig 100% fram og eru allir af vilja gerðir til þess að staka skref fram á við og á meðan það er staðan þá verður þetta fínt en þetta mun taka tíma og hann verður ekki mældur í vikum og mánuðum.“

Blikar ætla sér að berjast á toppi deildarinnar næstu árin en þjálfarinn var ekki tilbúinn að svara hvenær fyrsti bikar myndi koma í hús í Kópavogi.

„Ég ætla ekki að fara setja einhverja mælistiku á það eða gefa mér ákveðinn tímaramma með það. Breiðablik er lið sem á að vera í topp baráttu á hverju einasta ári og berjast um titla.

Þar ætlum við að vera en hvenær að titlar koma í hús er erfitt að svara. Vonandi uppskera menn eins og að sitja heima í sófanum eða spila golf verður ekki ástæð þess að við munum ekki ná árangri,“ bætti Óskar Hrafn við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert