Valsmenn skóluðu Blika til í Kópavogi

Höskuldur Gunnlaugsson úr Breiðabliki sækir að Birki Má Sævarssyni úr …
Höskuldur Gunnlaugsson úr Breiðabliki sækir að Birki Má Sævarssyni úr Val. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Einar Karl Ingvarsson reyndist hetja Valsmanna þegar liðið heimsótti Breiðablik í 7. umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvöll í Kópavogi í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Valsmanna en Einar Karl skoraði sigurmark leiksins á 81. mínútu.

Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val yfir strax í upphafi síðari hálfleiks þegar hann skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir misheppnað skot Kaj Leo fyrir nánast opnu marki.

Thomas Mikkelsen jafnaði metin fyrir Blika þremur mínútum síðar með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur eftir að Sebastian Hedlund togaði hann niður í teignum eftir hornspyrnu.

Það var svo Einar Karl Ingvarsson sem skoraði sigurmark Valsmanna á 81. mínútu af 25 metra færi eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 78. mínútu og þar við sat.

Valur fer með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í 13 stig en þetta var fjórði sigur liðsins á útivelli í deildinni á meðan liðið hefur aðeins fengið eitt stig á heimavelli í sumar. 

Blikar eru í fjórða sætinu með 11 stig eftir sjö leiki en liðið er nú án sigurs í síðustu fjórum leikum sínum gegn KA, FH, KR, Val, og liðið heldur áfram að misstíga sig gegn stærri liðum deildarinnar.

Patrick Pedersen sækir að Antoni Ara Einarssyni á Kópavogsvelli í …
Patrick Pedersen sækir að Antoni Ara Einarssyni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Sanngjarn sigur Vals

Valsmenn mættu á Kópavogsvöll í kvöld og létu svo sannarlega finna fyrir sér. Þeir uppskáru sex gul spjöld í leiknum og þau hefðu eflaust verið fleiri Ívar Orri Kristjánsson hefði haft kjark í að henda mönnum af velli. Þeir sköpuðu sér hættulegri færi í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik, og því auðvelt að réttlæta það að sigur þeirra hafi verið sanngjarn.

Valsmenn pressuðu Blikana gríðarlega vel meiri hluta leiksins og uppspil Blikanna var eftir því. Þegar Blikarnir virtust svo vera að sleppa úr pressunni brutu Valsmenn snyrtilega en jafnframt skynsamlega af sér og tókst þeim þannig að koma í veg fyrir hraðar sóknir Kópavogsliðiðsins.

Þá var varnarleikur Valsmanna gríðarlega þéttur og það var fátt um svör í sókninni Blikamegin. Valsvélin er byrjuð að malla en það er samt áður eitthvað sem vantar. Liðið er að ganga í gegnum ákveðið breytingarskeið undir stjórn Heimis Guðjónssonar sem mun taka tíma en liðið er á réttri leið og skólaði öflugt Blikalið til á þeirra eigin heimavelli í kvöld.

Darraðadans í vítateig Breiðabliks.
Darraðadans í vítateig Breiðabliks. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Blikarnir undir í baráttunni

Það er auðvelt að segja það en Blikaliðið var einfaldlega undir í baráttunni í kvöld. Þegar sigurmarkið kemur úr aukaspyrnu á 81. mínútu þá er auðvelt að segja að sigurinn hefði getað dottið báðu megin en Blikar voru einfaldlega ekki nægileg sannfærandi í sóknarleiknum í kvöld.

Blikar nýttu breidd vallarins illa og Höskuldur Gunnlaugsson spilað sem einhversskonar vinstri vængbakvörður. Þegar hann fékk boltann þá reyndi hann undantekninglaust að kötta inn á völlinn og það kom ekki ein fyrigjöf frá vinstri allan leikinn frá honum.

Eini leikmaður Breiðabliks sem var með kassann út allan leikinn var hinn 19 ára gamli Brynjólfur Andersen Willumsson sem lét finna vel fyrir sér í kvöld. Það er mikið verk framundan fyrir Óskar Hrafn Þorvaldsson í Kópavogi því það virðist vera þannig að liðið koðnar of auðveldlega þegar inn í stóru leikina er komið, líkt og það hefur gert undanfarin ár.

Breiðablik 1:2 Valur opna loka
90. mín. +4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is