„Er að einhverju leyti rammskakkt“

Höskuldur Gunnlaugsson reynir skot að marki Gróttu í gærkvöldi.
Höskuldur Gunnlaugsson reynir skot að marki Gróttu í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, segir allt annað en auðvelt að lesa í hvar menn standa í Pepsí Max-deildinni í knattspyrnu í ljósi aðstæðna. 

Breiðablik er sem stendur í 2. sæti með 20 stig eftir ellefu leiki. Óskar bendir á að vegna þess hvernig spilast hefur úr tímabilinu hafi sum lið ekki enn mæst og sum lið hafi hins vegar mæst tvisvar. 

„Auðvitað er þetta að einhverju leyti rammskakkt. Mér telst svo til að við spilum á móti Fjölni úti næst og í framhaldinu mætum við FH 13. september. Þá munum við eiga níu leiki eftir. Sex heimaleiki og þrjá útileiki. Hjá einhverjum öðrum liðum verður staðan örugglega ólík. Sumir hafa spilað tvisvar við eitthvert lið en hafa aldrei mætt öðrum. Við höfum til dæmis spilað tvisvar við Gróttu en höfum ekki enn mætt Stjörnunni. Í þessu er ákveðin skekkja sem erfitt er að gera ráð fyrir í myndinni. Stjarnan á tvo leiki til góða en á eftir að spila við KA sem er erfitt lið og eiga eftir að spila við KR. Valur og FH hafa til dæmis ekki mæst. Það er voða erfitt að segja til um þetta. Fyrir vikið er voðalega erfitt að segja til um hver er raunstaða. Maður getur bara reynt að vinna leikina sem maður spilar og séð hvar maður stendur þegar þetta jafnast út. Hvenær sem það verður. Kannski um miðjan október eða miðjan nóvember. Í dag eru allir að elta Val og það er bara verkefnið. Eins og þetta lítur út megum við ekki misstíga okkur mikið,“ sagði Óskar þegar mbl.is spjallaði við hann á Seltjarnarnesinu í gærkvöldi. 

Þar hafði Óskar betur 1:0 gegn sínum gömlu lærisveinum í Gróttu. Þrátt fyrir að vera manni fleiri frá því á 36. mínútu þurftu Blikar að bíða eftir sigurmarkinu en það kom á 74. mínútu þegar Thomas Mikkelsen skoraði úr vítaspyrnu. Mbl.is spurði Óskar hvort hann hafi verið orðinn stressaður yfir því að hans menn myndu ekki koma boltanum í netið. 

„Eftir því sem lengra líður á leikinn þá væri maður ekki mannlegur ef maður hefði ekki smá áhyggjur og færi ekki að efast. Maður reynir einhvern veginn að halda kúlinu á hliðarlínunni,“ sagði Óskar og glotti en bætti við. „Jú jú við vorum búnir að brenna af víti og brenna af fyrir opnu marki. En það gekk samt ekkert sérstaklega vel hjá okkur að skapa marktækifæri. Við vorum svolítið þunglamalegir. Menn virkuðu þreyttir og verð ég ekki bara að segja lélegir. Við náðum ekki að brjóta þá á bak aftur. Við fengum ungan og freskan mann inn á, Stefán Inga, sem kom með mikinn kraft inn á völlinn í sínum fyrsta leik í deildinni. Hann fiskaði víti og stundum eru það bara þessir litlu hlutir sem skilja á milli,“ sagði Óskar Hrafn. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert