Naumt tap gegn Ítalíu

Íslenska liðið mátti þola tap í dag.
Íslenska liðið mátti þola tap í dag. Ljósmynd/Bildbyrån

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mátti þola naumt 0:1-tap fyrir Ítalíu í vináttuleik í Flórens í dag. Þrátt fyrir tapið lék Ísland ágætlega, en tókst ekki að skapa nægilega góð færi til að skora.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn fyrsta hálftímann eða svo og var mikið með boltann. Illa gekk þó að spila sig í gegnum vörn ítalska liðsins og stóðu færin því á sér. Síðasta korterið í hálfleiknum spilaði ítalska liðið betur, en þrátt fyrir það var ekkert skorað í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn spilaðist á svipaðan máta; liðin jöfn og að skiptast á að leita að tækifærum til að komast framhjá vörn andstæðinganna. Það tókst á 72. mínútu þegar Arianna Caruso vann boltann í teignum, lék á Cecilíu Rán Rúnarsdóttur í marki Íslands og skoraði sigurmarkið.

Karitas Tómasdóttir komst nálægt því að jafna skömmu síðar en Francesca Durante í marki Ítalíu varði vel frá Selfyssingnum eftir skalla í kjölfar hornspyrnu. Karitas lék sinn fyrsta A-landsleik í dag en hún kom inn á um miðjan seinni hálfleik. Sveindís Jane Jónsdóttir skaut yfir úr fínu færi úr teignum undir lokin, en nær komst íslenska liðið ekki.

Liðin mætast aftur á þriðjudaginn kemur. 

Ítalía 1:0 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Ítalska liðið hefur sigur í dag eftir jafnan leik. Þetta hefði alveg getað dottið hinum megin, en það vantaði að skapa betri færi.
mbl.is