Íslandsmeistararnir styrkja sig

Breiðablik hefur sótt sér liðstyrk.
Breiðablik hefur sótt sér liðstyrk. Árni Sæberg

Bandaríska knattspyrnukonan Taylor Ziemer er gengin til liðs við Íslandsmeistara Breiðabliks. Hún kemur úr bandaríska háskólaboltanum en lék þar á undan í hollensku úrvalsdeildinni.

Ziemer, sem er 22 ára gamall miðjumaður, lék síðast með Texas A&M-háskólanum og hefur einnig leikið með Virginíuháskóla.

Tímabilið 2018/2019 lék hún með ADO Den Haag í hollensku úrvalsdeildinni, þar sem hún spilaði 24 leiki og skoraði fimm mörk þegar liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar.

Ziemer fær leikheimild á morgun og getur því spilað með Breiðablik á laugardaginn kemur þegar liðið tekur á móti Þór/KA í þriðju umferð úrvalsdeildar kvenna, Pepsi Max-deildinni.

mbl.is