Gáfum þeim haldreipi

Óskar Hrafn Þorvaldsson fylgist með leiknum á Akranesi í kvöld.
Óskar Hrafn Þorvaldsson fylgist með leiknum á Akranesi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Ég er bara sáttur við stigin og spilamennskuna að stórum hluta en gerðum þetta óþarflega spennandi því við áttum að vera búnir að gera út um leikinn miklu fyrr en heilt yfir get ég ekki annað en verið sáttur,“  sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Blika eftir 3:2 sigur á Skagamönnum á Akranesi í kvöld þegar liðin mættust í efstu deild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni.

Skagamenn pressu oft hraustlega. „Við vissum þannig lagað hvað Skagamenn ætluðu að gera í leiknum en auðvitað er ekki hægt að segja nákvæmlega hvenær þeir ætla að pressa en við vissum að þeir myndu koma framarlega í markspyrnum og mér fannst við leysa það en það er ekki endilega auðvelt á rennblautum og þungum vellinum.  Mér fannst við gera það vel, vorum hugrakkir og kraftmiklir,“ sagði þjálfarinn. 

„Mér fannst við hafa stjórn á leiknum í áttatíu og sex mínútur, allt þar til Skaginn skorar annað markið sitt og við afhentum þeim frumkvæði, hleypum þeim þannig inn í leikinn og gefum þeim haldreipi það sem eftir var leiks. Auðvitað er það þannig þegar lið eins og ÍA fær slíkt haldreipi, þá er liðið líklegt til að taka það og við komum okkur í erfiðar aðstæður en sem betur fer sýndum við líka andlegan styrk og liðsheild og sigldum þessu heim. Ég er ánægður með það þótt ég hefði viljað vera búinn að gera út um leikinn.“

Við liggjum á bæn

Thomas Mikkelsen markahrókur Breiðabliks meiddist og verður eitthvað frá en Blikar liggja á bæn. „Við tökum bara viku fyrir einu en þetta lítur ekki vel út. Hann virðist hafa tognað illa í náranum og ómögulegt að segja hvað hann verður lengi frá, hvort það er tvær, fjórar eða sex vikur. Við liggjum á bæn um hann jafni sig hraðar en búist er við því hann er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Hins vegar eru svona meiðsl þess eðlis að það er ekki hægt hraða batanum, hann verður bara að fá að jafna sig,“ bætti Óskar Hrafn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert