„Gátum þvingað þá í mistök“

Viktor Jónsson skoraði fyrra mark ÍA og er hér með …
Viktor Jónsson skoraði fyrra mark ÍA og er hér með Damir Muminovic miðvörð Blika fyrir aftan sig. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

„Þetta var auðvitað erfiður leikur því Blikar eru með hörkulið og erfiðir að eiga við,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA eftir 3:2 tap fyrir Breiðabliki á Akranesi í kvöld en þá hófst 6. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar.

„Við ætluðum að reyna pressa þá svolítið og gerðum það á köflum í fyrri hálfleik en vorum jafnvel sjálfum okkur verstir þegar við vorum að tapa boltanum á hættulegum stöðum svo að Blikar fengu nokkrar hættulegar skyndisóknir og eftir líka föst leikatriði hjá okkur. Það var pínulítið klaufalegt hjá okkur en ég er að mörgu leyti sáttur við fyrri hálfleikinn, menn lögðu mikla vinnu á sig í að stoppa Blikana og við gátum þvingað þá í mistök, að sparka út af vellinum og svoleiðis en það er erfitt að pressa á þá og mér fannst það hefðu mátt vera skýrari skil á milli þess hvenær vorum að pressa og hvenær við fórum aftar með vörnina.“

Jóhannes Karl Guðjónsson gengur til leiks á Akranesi í kvöld.
Jóhannes Karl Guðjónsson gengur til leiks á Akranesi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Skagamenn skiptu þremur inn á í hálfleik og hinum tveimur eftir klukkutíma.  „Við lögðum upp með að hafa orku í liðinu. Treystum hverjum einasta leikmanni í verkefnið, vissum að það yrði erfitt því við vildum pressa á Blikana og ekki leyfa þeim að vera í þægilegri stöðu með boltann úti um allan völl. Það var leikplanið. Svo enduðum við með því að fara í 4-3-3-skipulagið, ég hefði auðvitað viljað hafa jafnt í leiknum þegar við fórum í það skipulag og þegar við vorum búnir að koma því á og skiptum inn á áttum við alveg möguleika á að sækja á Blikana þegar leið á leikinn,“  bætti Jóhannes Karl við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert