Á von á öllum heilum og fleiri breytingum

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. Kristinn Magnússon

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segist reikna með því að allir í leikmannahópnum geti tekið þátt í síðari vináttuleik liðsins gegn Írlandi á morgun. Þá gerir hann ráð fyrir því að gera fleiri breytingar.

Ingibjörg Sigurðardóttir var tekin af velli í fyrri vináttuleiknum við Íra á föstudaginn vegna slappleika og Sveindís Jane tók engan þátt í honum.

„Svona nánast allar ættu að vera 100 prósent. Ingibjörg er klár í leikinn. Ég á fastlega von á því að Sveindís spili á morgun,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag.

Hann reiknar með því að gera fleiri breytingar í leiknum á morgun en á föstudaginn, en hann sagði fyrir þann leik að liðið myndi nálgast hann meira eins og leik í undankeppni.

Bæði reiknar Þorsteinn með því að breyta byrjunarliðinu nokkuð og gera fleiri innáskiptingar.

„Það verða fleiri breytingar í leiknum á morgun. Það er ekki alveg fastmótað en ég á von á því að við breytum meira. Það verður sama leikkerfi. Það verður í rauninni allt það sama nema ekki sömu leikmenn.

Við vinnum út frá því kerfi sem við viljum spila. Leikmennirnir sem koma inn læra hlutina eins og við viljum að þeir séu gerðir. Hvort sem leikmönnum er skipt inn á eða þeir byrja eigum við að vera að fara í rútínuna.

Þegar við erum að fara inn í leiki gerum við alltaf einhverjar breytingar innan liðsins. Þótt við munum halda okkur við það sama að einhverju leyti þá gerir maður alltaf einhverjar áherslubreytingar,“ sagði Þorsteinn.

Hann vildi ekki gefa upp neinar vísbendingar um byrjunarlið morgundagsins: „Þið sjáið byrjunarliðið á morgun, ég held að það sé alveg nóg. Ég er búinn að tilkynna byrjunarliðið innan hópsins.“

Sá margt jákvæðara

Ísland vann fyrri leikinn 3:2 eftir að hafa leitt 3:0 í hálfleik. Eftir leik var Þorsteinn ósáttur við að hafa fengið mörkin tvö á sig og fannst erfitt að fagna sigri eftir svo slakan síðari hálfleik.

Eftir að hafa horft á leikinn aftur var þó annað hljóð í honum. „Ég var ánægður með sóknarleikinn í fyrri hálfleik. Eftir að hafa horft á leikinn aftur þá fannst mér við vera að skapa færi, við héldum boltanum vel á köflum og þær voru ekkert að opna okkur.

Við náðum að spila nokkuð vel út úr teignum. Sú tilfinning sem maður hefur strax eftir leik er ekki alltaf alveg rétt. Það var margt sem ég sá jákvæðara en ég gerði akkúrat þegar leiknum var nýlokið.

Um var að ræða fyrsta sigur landsliðsins undir stjórn Þorsteins. Hann var vissulega ánægður með það.

„Já að sjálfsögðu var gott að vinna. Við erum öll í þessu til að vinna hvort sem það eru leikmenn eða aðrir. Það er mjög gott að hafa unnið og hjálpar okkur. Við þurfum að venjast því að vinna og þá er maður góðu vanur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert