Gengum á lagið eftir fyrsta markið – óþægilegt að sjá hann liggja

Kristinn Steindórsson var að vonum ánægður með frammistöðuna í kvöld.
Kristinn Steindórsson var að vonum ánægður með frammistöðuna í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Kristinn Steindórsson skoraði eitt mark og lagði annað upp í 4:0 sigri Breiðabliks á FH í úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld. Hann var ánægður með frammistöðuna en sagði að það hefði verið afar óþægilegt að horfa upp á samherja kvalinn og á leið á sjúkrahús undir lok fyrri hálfleiksins.

Blikar léku FH sundur og saman á köflum og höfðu gert út um leikinn eftir 60 mínútur með fjórum mörkum.

„Já, þetta var heldur betur glæsilegt. Við spiluðum reyndar mjög vel á móti Val [sá leikur tapaðist 3:1] en vorum þá klaufar að nýta ekki færin og verjast í þessi fáu skipti sem þeir komu boltanum inn í teig. Við löguðum það í dag og þá var þetta aldrei spurning. Ég held að það hafi verið hugarfarið sem réð úrslitum, stundum er þetta bara þannig að þú klúðrar færum og í önnur skipti skorar þú. Svo vorum við bara grimmir í varnarleiknum og hleyptum þeim aldrei í nein hættuleg færi, nema kannski aðeins í lokin þegar sigurinn var orðinn öruggur,“ sagði Kristinn.

Blikar vilja spila boltanum frá markverði og gerðu það á köflum listilega vel í kvöld og voru hvað eftir annað fljótir upp völlinn. Kristinn sagði að liðið myndi ekki hvika frá því að halda áfram á þessari braut.

„Já, við verðum að reyna þetta, við viljum spila svona og þótt það komi ekki rétt úrslit í einhver skipti þá þýðir ekkert að bakka og fara í eitthvað annað. Við ætlum að spila svona og þegar vel tekst til er fátt sem getur stöðvað það.“

En 4:0 sigur á FH er væntanlega stærri en þú reiknaðir með, eða hvað?

„Nei, maður bjóst kannski ekki við svona stórum sigri en við vissum að þeir væru búnir að ströggla dálítið og ef við kæmum fyrsta högginu á þá ættu þeir erfitt. Það sýndi sig, við gengum á lagið eftir fyrsta markið og kláruðum þetta sannfærandi.“

Þið eruð komnir að hlið KA í þriðja til fjórða sæti og horfið væntanlega til Valsmanna á toppnum?

„Já, að sjálfsögðu gerum við það, þótt það sé ekki hollt að vera að horfa of mikið þangað. Það er slatti eftir af mótinu og við þurfum að einbeita okkur að því sem við erum að gera. Við tókum frammistöðuna á móti Val með okkur inn í þennan leik, bættum spilið í teigunum, og svo horfum við bara á næsta leik og reynum að taka þrjú stig þar. Svo sjáum við til hvað gerist.“

Hvernig var að upplifa það að samherji, Jason Daði Svanþórsson, lá lengi á vellinum og var loks fluttur burt í sjúkrabíl?

„Ég veit ekki hvað gerðist, hann fékk alla vega ekki högg. Við heyrðum bara eftir leik að hann væri stabíll og fréttirnar af honum væru góðar. Vonandi finna þeir út hvað þetta var og hann verði kominn aftur sem fyrst.

Það var óþægilegt að sjá hann liggja án þess að um eitthvert högg væri að ræða, og hann var greinilega kvalinn. Eftir að leikurinn fór af stað var maður enn að horfa eftir því hvort sjúkrabíllinn væri ekki að koma. Maður var með hausinn þar fyrst í stað. En við sýndum mjög góðan karakter, ætluðum fyrst og fremst að ná að klára hálfleikinn og núllstilla okkur en tókst meira að segja að skora eitt mark í viðbót.

Jason er geggjaður leikmaður, sýndi það í markinu sem hann skoraði sem var glæsilega gert. Við hugsum bara til hans og vonumst eftir því að sjá hann sem fyrst aftur,“ sagði Kristinn Steindórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert