Blikar náðu verðskulduðu jafntefli í Vínarborg

Alexander Helgi Sigurðarson skoraði mark Blika í Vínarborg.
Alexander Helgi Sigurðarson skoraði mark Blika í Vínarborg. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Austria Wien og Breiðablik skildu jöfn, 1:1, þegar liðin léku fyrri leik sinn í annarri umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta á Viola-leikvanginum í Vínarborg.

Breiðablik var betri aðilinn á löngum köflum í leiknum og Alexander Helgi Sigurðarson skoraði jöfnunarmark liðsins í byrjun síðari hálfleiks. Seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli næsta fimmtudagskvöld og ljóst að Blikar eiga ágætis möguleika á að komast í þriðju umferð keppninnar.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti, fengu þrjár hornspyrnur á fyrstu sex mínútunum og eftir eina þeirra komst Damir Muminovic í gott færi í miðjum vítateig Austria og náði föstu skoti en Patrick Pentz markvörður varði mjög vel frá honum.

Blikar töldu sig eiga að fá vítaspyrnu á 14. mínútu og höfðu talsvert til síns máls. Gísli Eyjólfsson stakk sér inn í vítateiginn hægra megin og féll þegar hann reyndi að fara framhjá varnarmanni. Greinileg snerting en Kári á Höfðanum, færeyskur dómari leiksins, var ekki á því að rétt væri að benda á vítapunktinn. Í sjónvarpsútsendingu mátti vel sjá að varnarmaðurinn setti hnéð fyrir Gísla.

Austria komst smám saman inn í leikinn og náði góðum kafla þegar um hálftími var liðinn. Þá varði Anton Ari Einarsson í tvígang mjög vel frá Christian Schoissengeyr, fyrst fast skot frá vítateig og síðan skalla eftir hornspyrnu.

Á 32. mínútu náði Austria forystunni. Eftir góða sókn upp vinstri kantinn sendi Dominik Fitz boltann inn að markteig þar sem Marco Djuricin kom á ferðinni og fleytti honum áfram upp í hægra hornið, 1:0.

Þremur mínútum síðar fékk Djuricin sendingu í gegnum miðja vörn Blika og náði skoti frá vítateig, aðþrengdur af varnarmönnum, en Anton Ari varði í horn.

Blikar komust vel inn í leikinn á ný en þeir voru meira með boltann í fyrri hálfleik, 60 prósent af leiknum, og náðu oft góðum spilköflum. Oliver Sigurjónsson átti gott langskot rétt yfir mark Austria og á 41. mínútu náðu Blikar góðri sókn. Viktor Karl Einarsson fékk boltann frá Kristni Steindórssyni, lék að vítateig og átti fast skot sem Pentz varði vel í horn.

Undir lok hálfleiksins voru Blikar enn ágengir þegar Alexander Helgi Sigurðarson átti skot framhjá frá vítateig eftir hornspyrnu og mikla pressu í teig Austurríkismannanna.

Frábær byrjun á síðari hálfleik

Ekki gátu Blikar beðið um betri byrjun á seinni hálfleik. Strax á annarri mínútu hirti Alexander Helgi Sigurðarson boltann af mótherja á miðjum vallarhelmingi Austria, sendi á Árna Vilhjálmsson, fékk boltann aftur frá honum inn í vítateiginn hægra megin og skoraði með skoti í hornið fjær, 1:1.

Blikar héldu fínum tökum á leiknum í seinni hálfleik og voru lengst af sterkari aðilinn. Austria átti ekki eina einustu marktilraun fyrstu 32 mínútur hálfleiksins.

Árni Vilhjálmsson átti hins vegar skot framhjá markinu eftir góða sókn Blika á 61. mínútu og Kristinn Steindórsson var stöðvaður á síðustu stundu á 68. mínútu eftir góða rispu í vítateig Austria.

En Austurríkismennirnir hefðu þó getað fengið vítaspyrnu á 73. mínútu þegar Damir togaði í sóknarmann í vítateignum. Kári dómari var ekki á því að benda á punktinn frekar en í fyrri hálfleiknum.

Síðustu 20 mínúturnar var hörð stöðubarátta á vellinum en hvorugt liðanna náði að skapa sér teljandi marktækifæri fyrr en í uppbótartímanum þegar Gísli Eyjólfsson átti hörkuskot frá vítateig eftir góða sókn Kópavogsliðsins, rétt framhjá stönginni vinstra megin.

Marvin Martins hefði síðan getað skorað í blálokin þegar hann skaut frá vítateig en rétt framhjá Blikamarkinu vinstra megin.

Blikar geta verið ánægðir með sína frammistöðu. Þeir áttu í fullu tré við andstæðinga sína frá fyrstu mínútu, spiluðu sig óhræddir út úr erfiðum stöðum, pressuðu þá grimmt á þeirra vallarhelmingi og skoruðu markið einmitt með því að komast inn í sendingu framarlega á vellinum. Nú bíður Óskars Hrafns Þorvaldssonar og hans manna það skemmtilega verkefni að reyna að fylgja þessu eftir á Kópavogsvellinum eftir viku og freista þess að komast í 3. umferð keppninnar.

Austria Wien 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Gísli Eyjólfsson (Breiðablik) á skot framhjá Hörkuskot frá vítateig eftir góðan spilkafla Blikanna við vítateiginn. Rétt framhjá vinstra megin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert