Breiðablik upp í 3. sætið

Daninn Thomas Mikkelsen hjá Breiðabliki við það að sleppa í …
Daninn Thomas Mikkelsen hjá Breiðabliki við það að sleppa í gegn í kvöld. Björn Berg Bryde er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan og Breiðablik áttust við í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld og hafði Breiðablik betur 3:1.  

Stjarnan er í níunda sæti með 16 stig og Breiðablik í þriðja sæti með 29 stig. Með sigrinum fór Breiðablik upp fyrir KA og er fjórum stigum á eftir toppliði Vals en Blikar eiga leik til góða. 

Breiðablik var 2:0 yfir að loknum fyrri hálfleik. Bæði mörkin voru af laglegri gerðinni. Viktor Karl Einarsson skrúfaði boltann upp í fjærhornið vinstra megin í teignum á 24. mínútu. Breiðablik fékk aukaspyrnu við vítateigslínuna á 34. mínútu og úr henni skoraði Höskuldur Gunnlaugsson. Skaut hnitmiðuðu skoti í það sem hefði átt að vera markmannshornið en Arnar Darri Pétursson stóð hins vegar fyrir aftan vegginn eða í besta falli fyrir miðju marki. 

Garðbæingar virtust ekki líklegir til að ná í stig í upphafi síðari hálfleiks og Höskuldur bætti við marki á 54. mínútu eftir skemmtilegan einleik í gegnum miðja vörn Stjörnunnar. Þar var varnarleikur Garðbæinga hins vegar ekki merkilegur en Höskuldur gerði mjög vel úr stöðunni. 

Þorvaldur Örlygsson gerði fjórfalda skiptingu og hresstust Garðbæingar verulega. Daninn Oliver Haurits skoraði eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 73. mínútu. Hans annað mark í þremur leikjum. 

Ólík stemning

Stemningin í herbúðum liðanna var líklega nokkuð ólík í aðdraganda leiksins. Sumarið hefur verið erfitt fyrir Stjörnuna og liðið er að berjast í neðri hlutanum. Blikunum hefur hins vegar gengið vel að undanförnu, ef undan er skilinn leikurinn í Keflavík, og góð spilamennska í Evrópuleikjunum virðist hafa fært leikmönnum aukið sjálfstraust. Þar af leiðandi kom ekki á óvart að Breiðablik skyldi vinna þennan leik. 

Eftir að Breiðablik skoraði fyrsta markið hafði maður á tilfinningunni að liðið myndi taka öll stigin og sú varð raunin. Blikarnir spiluðu oft skemmtilega eins og þeir hafa burði til að gera.

En þeir höfðu ekki yfirburði á vellinum í síðari hálfleik. Stjarnan átti mörg skot á mark Breiðabliks og Anton Ari lék vel í markinu. En Garðbæingar fóru full seint í gang. Mun meiri kraftur var í þeim eftir fjórfalda skiptingu Þorvaldar og þeir reyndu hvað þeir gátu til að hleypa spennu í leikinn. Haurits átti til dæmis tvær ágætar skottilraunir fyrir utan að skora mark en Anton Ari var vandanum vaxinn. 

Deildin er óútreiknanleg og Bllikar hafa náð í sex stig eftir tapið í Keflavík. Þeir eru aftur á ágætum stað í kapphlaupinu um Íslandsmeistaratitilinn. Spurningin er hvaða liði tekst að ná stöðugleika á lokakaflanum. 

Stjarnan er rétt fyrir ofan fallsvæðið. Liðið getur allt eins fallið eins og önnur sem eru í baráttunni í neðri hlutanum. Ef ÍA og HK ná í fleiri stig í næstu leikjum þá galopnast sú barátta. 

Stjarnan 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Jason Daði Svanþórsson (Breiðablik) á skot framhjá Dauðafæri eftir stungusendingu frá Höskuldi. Var einn á móti markverði en skaut yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert