Valur Íslandsmeistari eftir stórsigur

Valskonur fagna Íslandsmeistaratitilinum í leikslok.
Valskonur fagna Íslandsmeistaratitilinum í leikslok. mbl.is/Sigurður Unnar

Valur er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu í annað sinn á þremur árum.

Valur vann Tindastól 6:1 í 16. umferð Pepsí Max deildarinnar á Hlíðarenda í kvöld og þar með er ljóst að Breiðablik getur ekki náð Val að stigum. 

Valur komst yfir strax á 6. mínútu leiksins þegar Elín Metta Jensen skoraði með góðu skoti en það var greinilegt frá fyrstu mínútu að Valsliðið ætlaði sér sigur í þessum leik og tryggja sér titilinn. Þær sóttu stíft á mark Tindastóls og það var aðeins stórleikur Amber Kristin Michel í marki Tindastóls sem kom í veg fyrir það að Valsliðið skoraði fleiri mörk á fyrstu mínútum leiksins. Á 23. mínútu áttu leikmenn Vals tvívegis skot í stöng, fyrst var það Elísa Viðarsdóttir og svo í kjölfarið setti Cyera Hintzen boltann líka í stöngina.

Þær voru ekki margar sóknirnir hjá liði Tindastóls en í fyrri hálfleik náðu gestirnir aðeins tvívegis skoti að marki Vals en í bæði skiptin tóku þær skot fyrir utan teiginn sem voru alls ekki hættuleg.

Valur hélt áfram að sækja og sækja og loksins á 35. mínútu leiksins náðu þær að bæta við öðru marki. Að þessu sinni var það Cyera Hintzen sem skoraði en Ásdís Karen Halldórsdóttir átti góða sendingu inn á teiginn og Cyera gerði vel og setti boltann laglega í netið.

Í seinni hálfleik héldu leikmenn Vals áfram að sækja á mark Tindastóls og náðu að skora strax eftir fimm mínútur. Þá tók Dóra María Lárusdóttir hornspyrnu sem Mist Edvaldsdóttir stangaði í netið. Ásdís Karen Halldórsdóttir kom svo liði Vals í 4:0 stuttu seinna. Fanndís Friðriksdóttir setti svo fimmta mark Vals Á 70. mínútu en hún var þá nýkomin inn á sem varamaður. Markið hennar var afar glæsilegt en hún tók skot fyrir utan teiginn í stöng og inn. Leikmenn Tindastóls náðu að klóra í bakkann á 84. mínútu þegar Jacqueline Altschuld skoraði úr vítaspyrnu. Fanndís Friðriksdóttir var samt ekki hætt og setti rétt fyrir leikslok sjötta mark Vals og öruggur 6:1 sigur staðreynd.

Þetta var afar öruggur sigur hjá liði Vals og svo sannarlega sanngjarn. Sóknarlína Vals var til fyrirmyndar í kvöld og áttu varnarmenn Tindastóls í miklum vandræðum með léttleikandi lið Vals. Satt að segja reyndi ekki mikið á varnarlínuna  hjá Val í kvöld þar sem Tindastóll sótti ekki á mörgum leikmönnum. 

Þessi sigur þýðir að Valur er Íslandsmeistari í tólfta sinn en liðið vann síðast titilinn árið 2019. Valur hefur verið mjög sannfærandi í síðustu leikjum en leikurinn í kvöld var sá níundi í röð sem liðið vinnur í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu.

Tindastóll er aftur á móti í vondum málum en liðið hefur nú tapar fjórum leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna og eru í neðsta sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Keflavík á mánudaginn og er það leikur upp á líf og dauða hjá liðinu.

Valur 6:1 Tindastóll opna loka
90. mín. Leik lokið 6:1 - Þessu er lokið hér á Hlíðarenda. Valur sigrar örugglega og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í tólfta sinn. Til hamingju Valur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert