Við vorum búnir að kortleggja þá vel

Pétur Viðarsson var í stóru hlutverki hjá FH í dag.
Pétur Viðarsson var í stóru hlutverki hjá FH í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Pétur Viðarsson var maðurinn sem sá til þess að Blikar færu tómhentir úr Kaplakrika í dag og misstu efsta sæti úrvalsdeildarinnar í fótbolta í hendur Víkinga fyrir lokaumferðina.

Hann skoraði sigurmark FH, 1:0, og átti auk þess stórleik í vörn FH-inga sem gaf fá færi á sér í leiknum gegn sókndjörfu liði Blika sem hefur verið á skotskónum undanfarnar vikur.

„Þetta var virkilega góður leikur. Við vorum með mjög gott skipulag og vorum búnir að leggja leikinn vel upp. Óli (Ólafur Jóhannesson) og Davíð (Davíð Þór Viðarsson) og allt þjálfarateymið var búið að kortleggja vel hvernig Blikarnir spila. Þeir eru náttúrulega frábærir með boltann en við vorum fastir fyrir og ákveðnir í öllum okkar aðgerðum, fórum í alla skallabolta og allar tæklingar til að vinna þær, og mér fannst við bara vera betri aðilinn í dag og eiga sigurinn fyllilega skilinn," sagði Pétur við mbl.is eftir leikinn og viðurkenndi um leið að Hafnarfjarðarliðið hefði þurft að verjast vel, sérstaklega í seinni hálfleiknum.

„Já, við vissum að það kæmu kaflar í leiknum þar sem við þyrftum að liggja aftarlega, þeir myndu vera með boltann og fá færi. Þetta er liðið sem er búið að spila einn besta boltann á landinu í sumar og við áttuðum okkur alveg á því að við þyrftum að eiga toppleik til að vinna, sem við gerðum.

Og mig langar til að hrósa sérstaklega ungu strákunum sem eru að spila með okkur. Þeir hafa sýnt ótrúlegar frammistöður, 17-19 ára strákar sem hafa verið ótrúlegir," sagði Pétur.

FH var í miklu basli framan af tímabilinu og virtist um tíma ætla að sogast niður í fallbaráttudeildarinnar. 

„Þetta var ekki gott og miðað við okkar gengi áður var þetta varla boðlegt. En við vitum alveg sjálfir og allir í þessu félagi átta sig á því að við eigum að vera ofar en þetta í deildinni. En það er jákvætt í þessu að ungir strákar hafa verið að fá tækifæri og þeir hafa staðið sig. Þeir hafa fengið mínútur í Evrópukeppni og mínútur í svona stórum leikjum og það á bara eftir að skila sér í framtíðinni," sagði varnarmaðurinn reyndi.

Sigurmark Péturs kom á 38. mínútu leiksins og hann var beðinn um að lýsa því.

„Jónatan tók hornið og Matthías skallaði – ég vissi fyrirfram að hann myndi vinna skallaboltann því hann var búinn að vinna hvern einasta bolta í loftinu í leiknum. Hann er ótrúlega sterkur og var frábær í dag. Ég passaði mig bara að vera kominn undir hann þegar hann myndi skalla boltann, var tilbúinn við stöngina fjær og náði að skalla hann inn," sagði Pétur.

Pétur var heiðraður fyrir leikinn, fyrir 250 leiki með meistaraflokki FH, og hélt upp á það með sigurmarkinu. Hans þriðja mark í deildinni í ár.

„Já, þetta er bara orðin veisla. Sennilega besta markasumarið mitt! En það skiptir svo sem ekki neinu máli fyrst liðið er ekki ofar en þetta. En auðvitað er fínt að skora og gaman að það skyldi vera sigurmarkið í dag," sagði Pétur og það staðfestist hér með að þetta er í fyrsta sinn sem þessi trausti varnarmaður skorar þrjú mörk á einu tímabili í úrvalsdeildinni.

FH-ingar hafa leikið vel að undanförnu. Þeir hafa nú unnið fjóra af síðustu sex leikjum og skorað á þeim tíma 16 mörk gegn aðeins tveimur.

„Já, við töluðum um það í gær að það er langt síðan okkur hefur fundist við vera verri aðilinn í leik. Við töpuðum fyrir Víkingi á heimavelli um daginn en að okkar mati, og fleiri held ég, vorum við töluvert betri aðilinn, en töpuðum samt. Við höfum átt  frábæra leiki, unnið tvisvar 5:0 og einu sinni 4:0 og haldið markinu hreinu hreinu, enn og aftur í dag, verið með gott skipulag. Síðustu leikir hafa verið mjög góðir," sagði Pétur.

Atli Gunnar Guðmundsson varði mark FH-inga í stað Gunnars Nielsens sem var í leikbanni og átti fínan leik á milli stanganna hjá Hafnarfjarðarliðinu. Pétur tók vel undir það.

„Hann stóð sig frábærlega. Atli kom til okkar fyrir tímabilið og er algjör toppmaður. Hann er frábær markmaður, mikill karakter, æðislegur á æfingum og í klefanum og leggur sig fram í allt sem hann gerir. Ég er ótrúlega ánægður fyrir hans hönd í dag," sagði Pétur Viðarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert