Gáfum hjarta, líkama og sál í verkefnið

Arnar Gunnlaugsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum í leikslok í dag.
Arnar Gunnlaugsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum í leikslok í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Víkings sagði eftir að meistaratitillinn  var í höfn með sigrinum á Leikni í lokaumferð úrvalsdeildarinnar að hann væri gríðarlega stoltur af sínu liði.

Víkingar enduðu í tíunda sæti deildarinnar í fyrra og unnu þá aðeins þrjá leiki en þeir stóðu uppi sem meistarar eftir 2:0 sigurinn á Leikni í dag og fengu 48 stig á Íslandsmótinu þar sem þeir  töpuðu aðeins tveimur leikjum af 22.

Trúðir þú því virkilega þegar þið fóruð af stað í vor að þið gætuð unnið Íslandsmeistaratitilinn?

„Það er erfitt að ætla að vera voðalega klár núna og segja já! Þetta er bara búið að vera ótrúlegt tímabil. Auðvitað hefur maður trú á verkefninu sínu en að hafa trú á því að það gangi upp í raun og veru er tvennt ólíkt. Þetta er bara búið að vera ótrúlegt sumar," sagði Arnar við mbl.is rétt eftir að Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings hóf Íslandsbikarinn á loft á Víkingsvellinum.

Þurftum að ryðja mörgum grýlum úr veginum

Í fyrra gekk nánast ekkert upp hjá ykkur, þið unnuð þrjá leiki og enduðuð í tíunda sæti. Hvernig var hægt að snúa þessu svona gjörsamlega við á einu ári?

„Við lögðum hrikalega hart að okkur í vetur, náðum í réttu leikmennina og unnum í því sem fór úrskeiðis á síðasta ári. Svo byrjuðum við mótið vel, náðum góðum  takti í liðið, unnum góðan sigur á móti Blikum snemma, jöfnuðum á síðustu stundu á móti Val og fleira í þeim dúr. Við héldum þessu góða gengi gangandi og þurftum svo að ryðja mörgum grýlum úr veginum í leiðinni. Við höfðum aldrei unnið KR undir minni stjórn og það var fleira svoleiðis," sagði Arnar og vildi líka hrósa keppinautum sínum í Breiðabliki.

„Blikarnir voru líka frábærir og ég vil meina að þetta sumar hafi verið sigur fyrir fótboltann á Íslandi eftir kóvid-árið í fyrra. Stuðningsmenn voru komnir á völlinn og maður fann fyrir svo miklum velvilja í okkar garð. Ekki bara frá stuðningsmönnum Víkings, heldur frá öllum einhvern veginn. Það héldu svo margir aðrir með okkur og ég er ógeðslega stoltur af því.“

Stuðningsmenn Víkings eru ánægðir með Arnar Gunnlaugsson þjálfara.
Stuðningsmenn Víkings eru ánægðir með Arnar Gunnlaugsson þjálfara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vendipunktur í íslenska fótboltanum í ár

„Mér finnst eins og þetta ár hafi verið vendipuntur í leiknum hérna á Íslandi. Við spiluðum góðan fótbolta, Blikar spiluðu góðan fótbolta og þetta þýðir að nú fara FH, KR og Valur að gefa í líka, og eftir þrjú til fjögur mögur ár á undan er það að gerast að mótið er orðið skemmtilegra, það heldur áfram á næsta ári og mun smita áfram inn í íslenska landsliðið.

Blikarnir sýndu að við getum líka spilað fótbolta í Evrópukeppni og við megum ekki vera hræddir við það og stefna þangað," sagði Arnar.

Hann var með góða blöndu í liðinu af eldri og yngri leikmönnum, betri en á síðasta tímabili, og tók undir þá fullyrðingu undirritaðs að Pablo Punyed hafi verið púslið sem liðið vantaði.

„Já, algjörlega. Kári og Sölvi gáfu allt í þetta verkefni á síðustu bensíndropunum. Pablo féll mjög vel inn í liðið og þar fengum við reynslumikinn miðjumann sem er líka sigurvegari, innan vallar og utan vallar, hvernig hann hagar sér í heildina. Svo fengum við Nikolaj Hansen  til að skora mikið fleiri mörk en áður. Vorum kannski að vonast eftir tíu mörkum frá honum en fengum sextán. Það gekk einhvern veginn allt upp hjá okkur.

Ég er ógeðslega stoltur af strákunum. Það síðasta sem ég sagði við þá fyrir þennan leik var hve stoltur ég væri af þeim. Ekki bara fyrir hvernig þeir væru búnir að fá stuðningsmenn Víkings í lið með sér heldur líka aðra stuðningsmenn. Þeir spila líka leikinn rétt. Við spilum ekki alltaf einhvern tiki-taka fótbolta, heldur gefum hjarta, líkama og sál í verkefnið og ég held að fólk hafi kunnað að meta það.“

Arnar Gunnlaugsson glaðbeittur með Guðna Bergssyni að leik loknum í …
Arnar Gunnlaugsson glaðbeittur með Guðna Bergssyni að leik loknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langar að koma sterkir í Evrópukeppnina

Hvað er langt eftir af óuppsegjanlega samningnum þínum?

„Það eru tvö ár eftir af honum og nú er bara að gefa í. Við leyfum okkur að fagna núna en fótboltinn leyfir okkur aldrei að fagna lengi. Um næstu helgi eru það undanúrslitin í bikarnum, og á næsta ári viljum við reyna að standa okkur jafnvel. Það er geysilega erfitt að viðhalda árangri, eins og Heimir Guðjónsson þjálfari Vals sagði á dögunum. Það þarf að sýna auðmýkt en halda svo áfram. Sýna það sama og Blikarnir gerðu í Evrópukeppninni, okkur langar að bætast í þann hóp og koma sterkir til leiks á þeim vettvangi, bara ekki sofna á verðinum."

En eins og þú segir þá er bikarinn eftir og þið ætlið ykkur vafalítið tvo titla og tvöfaldan sigur á tímabilinu?

„Já, það eru svo fá lið í sögunni sem hafa unnið það afrek og hver hefði trúað því að eitt af þeim yrði mögulega Víkingur? En eins og ég segi, við getum fagnað vel og vandlega núna en svo er það nýr fókus á mánudaginn," sagði Arnar Gunnlaugsson.

mbl.is