Fjögur mörk og endahnútur frá bræðrunum

Albert Guðmundsson skorar annað mark leiksins af vítapunktinum.
Albert Guðmundsson skorar annað mark leiksins af vítapunktinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland vann auðveldan og öruggan sigur á Liechtenstein, 4:0, í síðasta heimaleik sínum í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu frammi fyrir tæplega 4.500 áhorfendum á Laugardalsvellinum í kvöld.

Ísland er þá með átta stig í fimmta sæti riðilsins og á eftir útileikina við Rúmeníu og Norður-Makedóníu í nóvember. Þýskaland hefur  tryggt sér sigur í riðlinum eftir 4:0 sigur á Norður-Makedóníu í kvöld, er með 21 stig og komið á HM. Rúmenía vann Armeníu og er með 13 stig en Norður-Makedónía og Armenía eru með 12 stig. 

Albert Guðmundsson skoraði tvö markanna, bæði úr vítaspyrnum, og Stefán Teitur Þórðarson og Andri Lucas Guðjohnsen skoruðu sitt markið hvor.

Íslenska liðið var með völdin á vellinum frá fyrstu mínútu og sótti linnulítið gegn þéttri vörn Liechtensteina sem vörðust vel og skipulega við vítateiginn, staðráðnir í að gefa sem fæst færi á sér.

Fyrsta marktækifærið kom á 7. mínútu þegar Jón Dagur Þorsteinsson tók aukaspyrnu á vinstri kantinum og sendi inn í miðjan vítateig þar sem Brynjar Ingi Bjarnason skallaði niður í vinstra hornið en Benjamin Büchel markvörður varði örugglega.

Íslenska liðið fagnar fyrsta marki leiksins.
Íslenska liðið fagnar fyrsta marki leiksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir langa sókn Íslands kom markið sem braut ísinn á 19. mínútu. Jón Dagur fékk boltann á vinstri kantinum og sendi hann laglega inn að vítapunkti þar sem Stefán Teitur Þórðarson kom á ferðinni og skallaði niður í vinstra hornið, 1:0. Hans fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands.

Íslenska liðið hélt áfram að sækja stíft og næsta færi fékk Birkir Bjarnason sem átti hörkuskot með jörðu af 25 metra færi en Büchel varði það vel út við stöng á 29. mínútu.

Viðar Örn Kjartansson í baráttunni í dag.
Viðar Örn Kjartansson í baráttunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í kjölfarið þurfti Daníel Leó Grétarsson að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og Hjörtur Hermannsson kom í hans stað í miðja vörnina.

Á 34. mínútu átti Alfons Sampsted fast skot af 20 metra færi sem Büchel varði með því að slá boltann til hliðar. Uppúr klafsi sem því fylgdi reyndi Viðar Kjartansson að skjóta en boltinn hrökk í hönd Martins Marxer. Vítaspyrna og úr henni skoraði Albert Guðmundsson af öryggi, 2:0.

Sóknin hélt áfram nánast til loka hálfleiksins en undir lok hans áttu Liechtensteinar tvær fyrstu sóknarlotur sínar í leiknum. Nicolas Hasler átti skot langt framhjá marki í þeirri fyrri en sú seinni rann út í sandinn.

Daníel Leó Grétarsson með boltann í kvöld.
Daníel Leó Grétarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stórsókn og rautt spjald

Seinni hálfleikur hófst með stórsókn Íslands þar sem Viðar Örn, Stefán Teitur og Jón Dagur áttu allir skot að marki á fyrstu fimm mínútunum. Viðar fékk síðan dauðafæri eftir sendingu Jóns Dags á 52. mínútu en Büchel varði mjög vel frá honum af markteig.

Eftir linnulitla sókn var Martin Marxer rekinn af velli á 63. mínútu með sitt annað gula spjald þegar hann braut á Þóri Jóhanni Helgasyni sem var á fullri ferð í átt að markinu. Aukaspyrna á vítateigslínu sem Þórir tók sjálfur en skaut í varnarvegginn og síðan framhjá markinu.

Albert Guðmundsson og Viðar Örn Kjartansson fagna öðru marki leiksins …
Albert Guðmundsson og Viðar Örn Kjartansson fagna öðru marki leiksins sem Albert skoraði úr víti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson skipti um þrjá menn á 65. mínútu og einn af þeim nýju, Andri Fannar Baldursson, kom sér strax í færi en skaut yfir markið.

Annar varamannanna, Mikael Egill Ellertsson, átti gott skot rétt innan teigs á 72. mínútu. Büchel varði og náði síðan að komast í boltann rétt á undan Alberti sem var klár í að hirða frákastið.

Þáttur Guðjohnsen-bræðra

Þriðja markið kom á 79. mínútu. Sveinn Aron Guðjohnsen, þriðji varamaðurinn, var felldur þegar Andri Fannar Baldursson átti sendingu á hann inn í vítateiginn. Albert fór aftur á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 3:0.

Albert Guðmundsson gerir sig kláran til að taka vítaspyrnuna sem …
Albert Guðmundsson gerir sig kláran til að taka vítaspyrnuna sem hann skoraði úr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bræðurnir Sveinn Aron og Andri Lucas Guðjohnsen léku saman í framlínunni á lokamínútunum. Sveinn fékk dauðafæri á 87. mínútu eftir sendingu Alberts frá vinstri en þurfti að teygja sig í boltann og skallaði yfir af eins metra færi.

En á 89. mínútu rann upp söguleg stund. Andri Fannar sendi inn í vítateiginn á Svein Aron. Hann lagði boltann snyrtilega til hliðar á bróður sinn Andra Lucas sem skoraði með viðstöðulausu skoti frá vítapunkti, 4:0.

Stefán Teitur Þórðarson skorar fyrsta mark leiksins.
Stefán Teitur Þórðarson skorar fyrsta mark leiksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jón Dagur Þorsteinsson á fleygiferð í kvöld.
Jón Dagur Þorsteinsson á fleygiferð í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Guðmundur Þórarinsson í baráttunni við tvo leikmenn Liechtenstein.
Guðmundur Þórarinsson í baráttunni við tvo leikmenn Liechtenstein. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Daníel Leó Grétarsson með boltann í kvöld.
Daníel Leó Grétarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Albert Guðmundsson með boltann í dag.
Albert Guðmundsson með boltann í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Þjálfararnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson ræða saman …
Þjálfararnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson ræða saman fyrir leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Elías Rafn Ólafsson byrjar í markinu annan leikinn í röð.
Elías Rafn Ólafsson byrjar í markinu annan leikinn í röð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Leikmenn Íslands hita upp fyrir leik.
Leikmenn Íslands hita upp fyrir leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ísland 4:0 Liechtenstein opna loka
90. mín. 3 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert