Mjög óeðlilegt að Eggert hafi spilað leikinn

Steven Lennon fagnar marki sínu gegn Víkingum í gær.
Steven Lennon fagnar marki sínu gegn Víkingum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar Sveinn Geirsson, Forseti Leikmannasamtaka Íslands, segir mjög óeðliegt að Eggert Gunnþór Jónsson hafi verið í byrjunarliði FH þegar liðið heimsótti Víking úr Reykjavík í upphafsleik Bestu deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvöll í Fossvogi í gær.

Martin Hermannsson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik, birti færslu á Twitter í gær þar sem hann gagnrýndi ákvörðun FH-inga að spila Eggerti í leiknum.

Eggert hefur verið sakaður um gróft kynferðisbrot ásamt Aroni Einari Gunnarssyni en atvikið átti sér stað í landsliðsverkefni í Kaupmannahöfn árið 2010.

Báðir neita þeir sök en málið er nú á borði embættis héraðssaksóknara en ekki hefur ennþá verið tekin ákvörðun um það hvort ákært verði í málinu.

„Nei, það er mjög óeðlilegt,“ skrifaði Arnar Sveinn á samfélagsmiðilinn Twitter og vísaði þar í færslu Martins.

Sama um hvern ræðir, sama um hvers konar ofbeldismál er að ræða, að þá ætti það að vera mjög skýr og eðlileg krafa að viðkomandi spili ekki á meðan lögreglurannsókn er opin og í gangi,“ bætti Arnar Sveinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert