Óvænt hetja í stórleiknum á Kópavogsvelli

Arna Sif Ásgrímsdóttir kemur Valskonum yfir á Kópavogsvelli í kvöld.
Arna Sif Ásgrímsdóttir kemur Valskonum yfir á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna Sif Ásgrímsdóttir reyndist hetja Vals þegar liðið lagði Breiðablik að velli 1:0 í stórleik 6. umferðar Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í Kópavogi í kvöld.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Taylor Ziemer var nálægt því að koma Breiðabliki yfir strax á 5. mínútu þegar hún átti þrumuskot, rétt utan teigs, eftir hornspyrnu Blika.

Sandra Sigurðardóttir var hins vegar vel staðsett í marki Vals og hún varði boltann í þverslánna. Frákastið datt fyrir Melinu Ayres sem kom knettinum í netið en hún var réttilega dæmd rangstæð.

Átta mínútum síðar slapp Karitas Tómasdóttir ein í gegn um vörn Vals eftir laglega stungusendingu Hildar Antonsdóttur en Sandra gerði virkilega vel í marki Vals og lokaði vel á Karitas.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir átti hættulegustu marktilraun Vals í fyrri hálfleik þegar hún reyndi skot af 35 metra færi sem setti Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks í talsverð vandræði en markverðinum tókst að handsama boltann að endingu og staðan því markalaus í hálfleik.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti með Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur í broddi fylkingar en hún átti nokkrar frábærar rispur upp hægri kantinnog gerði varnarmönnum Vals afar erfitt fyrir á upphafsmínútum síðari hálfleiks.

Það var því gegn gangi leiksins þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir kom Val yfir á 55. mínútu með frábærum skalla eftir hornspyrnu Ásdísar Karenar og staðan orðin 1:0.

Áslaug Munda fékk frábært tækifæri til þess að jafna metin fyrir Breiðablik á 71. mínútu þegar Hildur Antonsdóttir átti mjög góðan sprett upp hægri kantinn.

Hún sendi boltann fyrir á Áslaugu Mundu sem var gapandi frí í vítateig Valskvenna og átti þrumuskot með hægri fæti sem Sandra varði meistaralega.

Blikar fengu kjörið tækifæri til þess að jafna metin á 82. mínútu þegar liðið fékk vítaspyrnu eftir mikinn darraðadans í vítateig Vals.

Melina Ayers steig á punktinn en Sandra Sigurðardóttir í marki Vals varði meistaralega frá henni. Frákastið datt fyrir Karitas Tómasdóttur sem átti fast skot en aftur varði Sandra.

Mörkin urðu ekki fleiri og Valskonur fögnuðu 1:0-sigri líkt og í leik liðanna á Kópavogsvelli á síðustu leiktíð.

Valskonur fara með sigrinum upp í efsta sæti deildarinnar í 15 stig en Breiðablik er sem fyrr í sjötta sætinu með 9 stig.

Breiðablik 0:1 Valur opna loka
90. mín. Cyera Hintzen (Valur) fer af velli
mbl.is