Hallur Hansson hetja KR í Njarðvík

Úr leik KR og Njarðvíkur í bikarkeppninni sumarið 2019.
Úr leik KR og Njarðvíkur í bikarkeppninni sumarið 2019. Haraldur Jónasson/Hari

Njarðvík og KR mættust í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld í köldu veðri suður með sjó. Njarðvíkingar höfðu í 32-liða úrslitum niðurlægt granna sína í Keflavík og það mátti allt eins búast við hörku viðureign, sem varð raunin.  Það var hins vegar Hallur Hansson sem gerði eina mark leiksins á 85. mínútu leiksins eftir glæsilega afgreiðslu. 

Leikurinn var nokkuð jafn en þegar líða tók á fór sóknarþungi KR að herja ansi duglega á annars nokkuð þéttan varnarleik heimamanna. Fram að því höfðu bæði lið átt sín færi og Njarðvíkingar meðal annars átt skot í slánna hjá KR.  Markverðir beggja liða fengu alveg að vinna fyrir launum sínum en nokkuð meira að gera hjá Robert Blakala hjá Njarðvík.  

Rétt eins og í leik sínum gegn Keflavík í bikarnum, þá létu Njarðvíkingar gesti sína finna vel til tevatnsins og oftar en ekki lágu KR-ingar í grasinu og kvörtuðu sáran. Hinsvegar var Hallur Hansson, bjargvættur KR þetta kvöldið, stál heppinn að líta ekki rauða spjaldið fyrir brot, rétt áður en hann afgreiddi boltann í netið hjá Njarðvík.  

Heilt yfir vörðust Njarðvíkingar mjög vel þetta kvöldið og gestirnir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir þessum sigri. Í lokasókninni átti Blakala markvörður Njarðvíkinga skalla að marki eftir hornspyrnu sem Beitir Ólafsson í marki KR varði glæsilega. 

Njarðvík 0:1 KR opna loka
90. mín. Njarðvík fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert