„Heppnisskot með hægri“

Logi Tómasson (t.v.) í leiknum í kvöld.
Logi Tómasson (t.v.) í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Bakvörðurinn Logi Tómasson átti frábæran leik fyrir Víkinga í kvöld í 6:0 sigri á Selfyssingum í Mjólkurbikarnum í knattspyrnu. Hann stóð vaktina vel í vörninni í fyrri hálfleiknum og skoraði svo þrennu í seinni hálfleiknum þegar hann var færður framar á völlinn.

„Þetta var skrítið. Arnar færði mig inn á miðjuna og ég ætlaði bara að vera í því að dreifa boltanum og búa eitthvað til og vera rólegur. Ég færði mig ofar og fékk hann tvisvar innfyrir og náði síðan að klára þrennuna með einhverju heppnisskoti með hægri, sem gerist ekki oft,“ sagði Logi hress í samtali við mbl.is í leikslok.

„Þetta voru ágætis mörk, í fyrsta færinu var ég reyndar bara að skjóta eitthvert og vona að boltinn færi inn. Þegar ég var kominn með tvö þá var ekki hægt annað en að reyna við þrennuna og ég er glaður að hafa náð henni,“ bætti Logi við en aðeins leið rúm mínúta á milli fyrstu tveggja markanna hans og það þriðja kom á 83. mínútu eftir þunga sókn.

„Annars var þetta bara fínn leikur hjá okkur. Selfyssingarnir gáfu okkur góðan leik en við vorum með gæðin í dag og það skilaði okkur þessum sigri,“ sagði Logi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert