Tíu Víkingar stóðu frábærlega í sænsku meisturunum

Viktor Örlygur Andrason í viðureign Víkings og Inter d'Escaldes í …
Viktor Örlygur Andrason í viðureign Víkings og Inter d'Escaldes í úrslitaleik forkeppninnar. mbl.is/Hákon

Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík máttu sætta sig við naumt 2:3-tap gegn Svíþjóðarmeisturum Malmö í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í dag, og það þrátt fyrir að leika einum manni færri í um 55 mínútur eftir að Kristall Máni Ingason fékk furðulegt rautt spjald í fyrri hálfleik eftir að hann hafði skorað.

Fyrri hálfleikurinn var afar líflegur. Ola Toivonen fékk sannkallað dauðafæri strax á þriðju mínútu þegar hann skallaði laglega fyrirgjöf Jo Inge Berget naumlega framhjá.

Víkingar tóku þá vel við sér og voru alls óhræddir við að halda boltanum.

Karl Friðleifur Gunnarsson kom sér í góða skotstöðu á tíundu mínútu eftir sendingu Pablo Punyed og náði hættulegu vinstri fótar skoti en Dennis Hadzikudanic gerði vel í að komast fyrir það.

Á 16. mínútu náði Malmö forystunni. Veljko Birmancevic renndi boltanum út á Anders Christiansen sem hitti boltann engan veginn, hann barst til Martin Olsson sem skaut að marki og fór boltinn af Júlíusi Magnússyni, breytti þannig um stefnu og hafnaði nærhorninu.

Fimm mínútum síðar sparkaði Niklas Moisander í höfuðið á Halldóri Smára innan vítateigs, sem vann skallaboltann eftir hornspyrnu, en fengu Víkingar þó ekki dæmda vítaspyrnu. Miðað við það sem kom á eftir var það ekki mjög óvænt ákvörðun hjá dómaranum.

Malmö átti í miklum erfiðleikum með Kristal Mána sem fór illa með varnarmenn sænsku meistaranna í sífellu. Var enda brotið á honum um það bil tíu sinnum í fyrri hálfleiknum og engu líkara en að lagt væri upp með að sparka hann niður.

Auk þess fékk Kristall Máni gult spjald fyrir leikaraskap þegar hann var að forða sér upp úr hættulegri sólatæklingu Sergio Pena.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í framhaldinu og jafnaði Kristall Máni metin á 38. mínútu.

Hann fékk þá stórkostlega sendingu inn fyrir frá Pablo, tók vel við boltanum og smeygði honum svo lymskulega framhjá Johan Dahlin í marki Malmö, 1:1.

Kristall Máni fagnaði marki sínu, hans þriðja í þriðja Evrópuleik sínum á ferlinum, með því að sussa á stuðningsmenn Malmö.

Fyrir það uppskar hann á einhvern illskiljanlegan hátt annað gult spjald frá afleitum dómara leiksins, Dumitri Muntean frá Moldóvu, og Víkingar því einum færri það sem eftir lifði leiks.

Auk þess verður Kristall Máni í leikbanni í síðari leik liðanna á Víkingsvelli í næstu viku.

Á 42. mínútu náði Malmö forystunni á ný. Berget átti þá frábæra fyrirgjöf á Toivonen, sem smeygði sér fram fyrir Halldór Smára og skallaði boltann laglega í bláhornið.

Toivonen fagnaði með því að öskra á stuðningsmenn Víkings en Muntean sá þó ekki ástæðu til þess að gefa honum gult spjald fyrir. Athyglisvert það.

Staðan því 2:1 í leikhléi, Malmö í vil.

Í síðari hálfleik færðu tíu Víkingar sig aftar á völlinn og vörðust vel.

Flestar tilraunir Málmeyinga voru skot fyrir utan teig en hættulegast þeirra átti Pena þegar síðari hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður.

Fékk Perúbúinn þá boltann hægra megin við vítateiginn eftir hornspyrnu, skrúfaði boltann laglega í fjærhornið en hafnaði boltinn í stönginni. Anders Christiansen fylgdi á eftir af stuttu færi en Viktor Örlygur Andrason komst í veg fyrir skotið.

Á 83. mínútu náði Malmö loks að opna vörn Víkinga almennilega og uppskar þriðja mark sitt.

Halldór Smári hreinsaði þá boltanum of stutt frá, boltinn fór beint í fætur varamannsins Hugo Larsson, hann renndi boltanum til hliðar á Veljko Birmancevic sem skoraði með hnitmiðuðu þrumuskoti niður í bláhornið fjær.

Á annarri mínútu uppbótartíma átti Hadzikudanic hörkuskalla eftir hornspyrnu Birmancevic sem hafnaði í utanverðri stönginni.

Einum færri voru Víkingar hins vegar ekkert á því að gefast upp. Varamaðurinn Helgi Guðjónsson minnkaði muninn á þriðju mínútu uppbótartíma.

Þá komst hann inn í lélega þversendingu varamannsins Jonas Knudsen, lék með boltann í átt að vítateig, tók þar skot sem fór af varnarmanni Malmö og sigldi þaðan niður í bláhornið fjær.

Malmö fékk í kjölfarið tvö dauðafæri er varamaðurinn Sebastian Nanasi skaut framhjá af örstuttu færi og Berget skallaði framhjá úr opnu skallafæri í kjölfar hornspyrnu sem var ranglega dæmd í kjölfar skots Nanasi.

Að því loknu flautaði Muntean til leiksloka og 2:3-tap niðurstaðan, sem verður að teljast virkilega góð úrslit fyrir Víkinga á erfiðum útivelli með dómara á flautunni sem var einfaldlega ekki starfi sínu vaxinn.

Hugrekki í síðari hálfleik

Víkingar sýndu mikið hugrekki í leik sínum einum færri og vörðust frábærlega allan fyrri hálfleikinn.

Birmancevic, sem var manna líflegastur í liði Malmö, nýtti eina opna færi liðsins í síðari hálfleiknum vel og lítið við því að gera þó Halldór Smári hafi getað hreinsað lengra frá í aðdragandanum.

Fullur sjálfstrausts og óþreyttur var Helgi, sem vann skallaboltann áður en Knudsen átti feilsendinguna sem hann komst svo inn í, áfjáður í að pressa undir lokin og uppskar gott mark sem gæti reynst Víkingum gulls ígildi.

Malmö 3:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Nærri því sjálfsmark! Sending Berget af Ekroth og rúllar rétt fyrir framan marklínuna áður en Davíð Örn hreinsar frá.
mbl.is