Brjálaðir yfir einhverju sem við köllum tittlingaskít

Leikmenn Buducnost voru afar ósáttir í kvöld.
Leikmenn Buducnost voru afar ósáttir í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við stjórna leiknum,“ sagði Oliver Sigurjónsson, miðjumaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins á Buducnost frá Svartfjallalandi í Sambandsdeildinni í fótbolta í kvöld.

„Við hefðum getað verið með meira tempó í sendingum og tekið færri snertingar. Það var mikið um þrjár og fjórar snertingar í staðinn fyrir eina eða tvær. Þetta gekk að lokum og það var mikilvægt að ná þessum mörkum í lokin. 

Stundum í fótbolta þarf maður að gleyma sér aðeins í leiknum en það er erfitt þegar leikurinn er leikurinn dettur svona svakalega langt niður. Þeir töfðu helvíti mikið og það var alvöru próf fyrir okkur að takast á við þetta en ef við ætlum að komast á næsta stig þurfum við að geta rifið tempóið upp þegar leikirnir eru svona dauðir,“ bætti hann við. 

Oliver sagði leikmenn Buducnost hafa tafið mikið.
Oliver sagði leikmenn Buducnost hafa tafið mikið. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir leikmenn gestanna fengu rautt spjald í kvöld og þjálfarinn þeirra sömuleiðis. „Þetta var mikið bíó og spennustigið hátt. Tvö rauð spjöld á þá og þrjú með þjálfaranum. Við þurfum að vera kaldir í framhaldinu og reyna að vinna þá úti,“ sagði Oliver. 

Í leikslok veittust leikmenn gestanna að leikmönnum Breiðabliks og þurfti lögreglan að skerast í leikinn. „Ég veit ekki alveg hvað þetta var. Það voru einhver orðaskipti við leikmann hjá okkur þegar þjálfarinn þeirra fékk rautt. Ég veit ekki alveg hvað það var. Þeir voru brjálaðir yfir einhverju sem við köllum tittlingaskít á íslensku.“

Enginn sérfræðingur í dómgæslu

Oliver segir rauðu spjöldin sem Buducnost hafi fengið í leiknum hafi verið rétt, en viðurkenndi á sama tíma að hann væri lítill sérfræðingur í dómgæslu. 

„Það er erfitt fyrir mig að dæma leikinn en mér fannst þetta alveg rétt. Ég er enginn sérfræðingur í dómgæslu þótt ég hafi skoðun á ýmsu sem dómararnir gera. Guði sé lof eru þeir sérfræðingar í þessu en ekki ég,“ sagði hann léttur. 

Höskuldur Gunnlaugsson skoraði seinna mark Breiðabliks úr víti eftir að Oliver var felldur innan teigs. Hann viðurkennir hinsvegar að það hefði verið hægt að sleppa því, þar sem varnarmaðurinn fór fyrst í boltann. „Hann fór í boltann og svo í mig. Það er alveg hægt að dæma víti á þetta en það hefði líka verið hægt að sleppa því. Við tökum þessu. Það er fínt að vera með 2:0 í staðinn fyrir 1:0.“

Oliver Sigurjónsson
Oliver Sigurjónsson Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Þrátt fyrir að vera tveimur mönnum fleiri síðustu rúmu 20 mínúturnar gekk Breiðabliki illa að skapa sér færi, þar til mörkin tvö komu í blálokin. 

„Mér leist ágætlega á blikuna en auðvitað færist yfir okkur pínu óöryggi þegar við erum að reyna að brjóta þá niður. Við vorum ekki að fá þessi hættulegu færi sem við erum vanalega að fá í deildinni. Við þurfum að fara yfir leikinn og sjá hvernig við getum komið boltanum meira inn í teiginn og finna lausnir. Við þurfum að finna hlaupin og skapa okkur meira. Þetta verður stundum kærulaust og maður býst við miklu af sjálfum sér þegar maður er einum og hvað þá tveimur fleiri. Við höfum trú og við vitum að við erum góðir hérna á Kópavogsvelli.“

Eftir hasarinn í kvöld eiga Blikar væntanlega von á óblíðum mótökum í seinni leiknum í Svartfjallalandi eftir viku. „Við getum ekki verið hræddir við eitt né neitt. Þetta er bara fótbolti og menn hafa örugglega farið í verri aðstæður en þetta. Við þurfum að vera kaldir,“ sagði Oliver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert