Þrjú rauð og tvö mörk í lokin hjá Blikum

Heitt í kolunum á milli leikmanna Breiðabliks og Buducnost á …
Heitt í kolunum á milli leikmanna Breiðabliks og Buducnost á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik hafði betur, 2:0, í stórfurðulegum leik gegn Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi á Kópavogsvelli í fyrri leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta í kvöld. Blikar verða því með tveggja marka forskot þegar seinni leikurinn fer fram í Svartfjallalandi eftir viku.    

Breiðablik byrjaði betur og Jason Daði Svanþórsson fékk gott færi til að skora strax í upphafi leiks en hann skallaði framhjá af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Höskuldi Gunnlaugssyni. Reyndist það besta færi Breiðabliks í hálfleiknum en illa gekk að reyna á Milos Dragojevic í marki gestanna.

Oliver Sigurjónsson átti tvær svipaðar tilraunir af löngu færi þar sem boltinn fór hátt yfir í bæði skiptin. Þess utan voru tilraunir Blika fáar, þrátt fyrir að þeir hafi verið nokkuð með boltann.

Hinum megin voru gestirnir aðallega hættulegir í föstum leikatriðum en Anton Ari Einarsson hafði ekki mikið að gera í markinu hjá Breiðabliki og var staðan í leikhléi því markalaus.

Rétt eins og í fyrri hálfleik fékk Jason Daði fyrsta færi seinni hálfleiks en hann skaut beint á Dragojevic í marki gestanna á 49. mínútu úr fínu færi. Örskömmu síðar skaut Gísli Eyjólfsson yfir með bakfallsspyrnu í teignum.

Til tíðinda dró á 55. mínútu þegar Andrija Raznatovic sló til Jasons Daða þegar boltinn var hvergi nærri og fékk verðskuldað rautt spjald. Tæpu korteri síðar voru gestirnir orðnir níu því Luka Mirkovic fékk sitt annað gula spjald, skömmu eftir hið fyrra, og þar með rautt. Það var ekki síðasta rauða spjald gestanna því Aleksandar Nedovic, þjálfari liðsins, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt undir lokin. 

Eftir annað rauða spjaldið vörðust gestirnir vel á milli þess sem þeim tókst að tefja töluvert. Það virtist ætla að skila þeim sterku jafntefli en varamaðurinn Kristinn Steindórsson var á öðru máli. Hann skoraði fallegt mark á 88. mínútu með hnitmiðuðu skoti í teignum eftir góðan undirbúning frá Höskuldi Gunnlaugssyni.

Höskuldur sá sjálfur um að gera annað markið í uppbótartíma er hann skoraði af miklu öryggi úr víti sem Oliver Sigurjónsson náði í og þar við sat.

Sigurliðið í einvíginu mætir annaðhvort Istanbúl Basaksehir frá Tyrklandi og Maccabi Netanya frá Ísrael í þriðju umferðinni.

Breiðablik 2:0 Buducnost opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert