Fáum ekki svona bíó á Íslandi

Milos Dragojevic, markvörður Buducnost, var vægast sagt heitur í leikslok.
Milos Dragojevic, markvörður Buducnost, var vægast sagt heitur í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með 2:0-sigur liðsins á Buducnost frá Svartfjallalandi í fyrri leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta í kvöld. Leikurinn var hinn skrautlegasti því tveir leikmenn og þjálfari Buducnost fengu rautt spjald og þá veittust leikmenn Buducnost að leikmönnum Breiðabliks eftir leik.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er ég sáttur með að ná tveimur mörkum. Það varð ekkert auðveldara að brjóta þá á bak eftir þegar þeir urðu tíu og níu, þeir einhvern veginn hertust í því sem þeir eru góðir; hægja á leiknum, detta og láta tímann líða. Þeir voru aðeins ýktari í að tefja en leikurinn þróast svona.

Þeim fannst illa að sér vegið þegar þeir fá rautt spjald og það ýkir alla hegðunina þeirra. Svo fer annar maður út af og það spólar enn upp reiðina og tilfinningarnar hjá þeim. Ég ætla ekki að dæma þá of harkalega. Þetta var rosalega skrítinn seinni hálfleikur,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is eftir leik og hélt áfram.

Blikar fagna fyrra marki leiksins.
Blikar fagna fyrra marki leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var skrítinn og erfiður leikur og stemningin víruð af þeirra hálfu. Þeir virtust ekki koma hingað til að spila fótbolta heldur ná 0:0 og ganga frá okkur úti. Bæði rauðu spjöldin voru hárrétt. Seinna var tvö gul og bæði voru rétt og fyrra var klárt rautt spjald. Það var ekkert annað í stöðunni en að reka þá af velli. Þá var þjálfarinn þeirra búinn að labba þrisvar inn á völlinn og þetta var ákveðið stjórnleysi hjá þeim.

Kannski bjuggust þeir við auðveldari leik og að þeir gætu labbað í gegnum þetta á móti íslensku liði en mér fannst við vera sterkari aðilinn allan tímann en ég hefði viljað sjá meiri grimmd í teignum og betri ákvarðanir í síðustu sendingunni en á milli teiganna vorum við flottir og svona leikur er brjálæðislega dýrmætur í reynslubankann. Þetta er ekki leikur sem við fáum á Íslandi. Við fáum ekki svona bíó, svona framkomu og ekki svona leikrit eins og við stóðum frammi fyrir í dag. Ég er stoltur af liðinu að ná að halda haus og ekki missa móðinn.“

Eftir leik veittust allir leikmenn Buducnost að leikmönnum Blika, einnig varamenn og úr urðu læti þar til lögreglan skarst í leikinn.

Buducnost fékk þrjú rauð spjöld í leiknum.
Buducnost fékk þrjú rauð spjöld í leiknum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég veit það ekki. Það voru einhverjar tilfinningar sem brutust út hjá þeim. Þeir voru ósáttir við eitthvað en ég veit ekki hvað það var,“ sagði Óskar, sem á ekki von á blíðum mótökum þegar Blikar fara í seinni leikinn í Svartfjallalandi eftir viku. „Ég geri ekki ráð fyrir að þær verði á vinalegu nótunum. Það verður ekki rúllað út rauðum dregli og borið kampavín og kavíar til okkar. Það er alveg ljóst. En ég hef ekki áhyggjur. Við mætum þarna og ætlum að vinna þá aftur.“

Bæði mörk Breiðabliks komu í lokin og var Óskar sérstaklega ánægður með að ná inn tveimur mörkum fyrir seinni leikinn.

„Það er ómetanlegt. Það er rosalega mikill munur á 1:0 og 2:0. Ég tek ofan fyrir liðinu mínu. Það hefði verið auðvelt að örvænta og fara að henda í langa bolta. Við misstum okkur aldrei í það heldur héldum haus. Við héldum okkur við planið og upp úr því koma þessi mörk.

Mér leið merkilega vel því ég hef oft séð liðið mitt klára leiki á síðustu mínútunum. Menn eru vanir því að sækja, þótt það komi stundum í bakið á okkur. Við höfum verið góðir í að sækja sigra á lokamínútunum og það er karakter og svo eru menn í góðu formi og með sjálfstraust og trú að það sem við erum að gera muni skila mörkum og sigrum á endanum,“ sagði Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert