Fljótur að bíta í rassgatið á þér

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta verður ansi skemmtilegt verkefni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is fyrir fyrri leikinn gegn The New Saints í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Víkingsvelli í kvöld.

„Ég met möguleika okkar mjög góða. Þetta er mjög áhugavert lið sem spilar öðruvísi fótbolta heldur en til dæmis Malmö og er með mikla reynslu í Evrópu. Þeir stóðu sig mjög vel í Evrópukeppni í fyrra og voru óheppnir að komast ekki í fjórðu umferð.

Þetta verður ansi skemmtilegt verkefni. Eftir að hafa horft á þá undanfarna daga tel ég möguleika okkar góða.“ 

TNS datt út gegn Linfield í 1. umferð Meistaradeildarinnar með naumindum. TNS vann fyrri leikinn 1:0 á heimavelli en er liðið fór til Norður-Írlands fékk það mark á sig í uppbótartíma og það þurfti að framlengja leikinn. Í framlengingunni skoraði svo Linfield annað mark og komst því áfram. 

Linfield vann Noregsmeistaranna Bodö/Glimt 1:0 í fyrri leiknum í 2. umferð Meistaradeildarinnar. 

„Evrópufótboltinn er þannig í dag að hann er orðinn mun jafnari á milli liða. Linfield-menn unnu Bodö/Glimt 1:0 og slógu út Zalgiris, 10:1 samanlagt í fyrra, og Zalgiris var að vinna Malmö. Þannig þetta er ekkert grín. Það er bara þannig núna að ef þú ert ekki að spila þinn besta leik þá ertu í mjög vondum málum. Og þú munt þjást ef þú ert ekki með þína hluti á hreinu. 

Það er hinsvegar gott flæði í leik okkar núna. Við erum búnir að spila mikið af leikjum, og hópurinn hefur verið mikið saman upp á síðkastið út af Evrópuævintýrinu og við höfum náð að skerpa á góðum hlutum. Einbeitingin hefur verið mikil sem gerir okkur kleift að bæta okkur mjög fljótt og örugglega þannig að við erum á góðum stað núna. En fótboltinn er fljótur að bíta í rassgatið á þér ef þú heldur að þú sért orðinn prófesor í fótboltafræðunum,“ sagði Arnar léttur á því að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert