Blikar áfram eftir naumt tap í Podgorica

Viktor Karl Einarsson reynir skot að marki Buducnost á Kópavogsvelli.
Viktor Karl Einarsson reynir skot að marki Buducnost á Kópavogsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er komið í þriðju umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta og mætir þar Istanbul Basaksehir frá Tyrklandi eftir 2:1 tap fyrir Buducnost í Podgorica í Svartfjallalandi í kvöld.

Blikar unnu þar með einvígi liðanna 3:2 eftir að hafa unnið heimaleikinn 2:0.

Fyrri leikurinn fer fram á Kópavogsvelli 4. ágúst og sá seinni í Istanbúl 11. ágúst.

Blikar byrjuðu leikinn ágætlega og fengu fyrsta færið á 9. mínútu þegar markvörðurinn varði frá Ísak Snæ Þorvaldssyni úr þröngu færi í markteignum.

Eftir um 20 mínútur fóku Svartfellingar að sækja stíft og fengu nokkur góð færi á sex mínútna kafla. Anton Ari Einarsson varði vel í horn frá Zaran Petrovic, Vladan Adzic skallaði yfir mark Blika úr dauðafæri í markteignum og Branislav Jankovic átti gott skot vinstra megin úr vítateignum sem Anton Ari varði vel.

Blikar fengu dauðafæri á 32. mínútu, upp úr hornspyrnu, þegar Kristinn Steindórsson skallaði vinstra megin úr markteignum, hárfínt framhjá stönginni fjær.

Ísak Snær komst í færi í vítateignum á 36. mínútu en markvörðurinn var snöggur og lokaði á hann áður en hann náði að skjóta.

Á 37. mínútu komst Buducnost yfir. Zaran Petrovic sendi inn í vítateiginn á Branko Jankovic sem var einn gegn Antoni Ara og náði að skila boltanum framhjá honum og í netið, 1:0.

Buducnost fékk sannkallað dauðafæri á 43. mínútu til að ná tveggja marka forystu. Viktor Djukanovic komst innfyrir Blikavörnina og framhjá Antoni Ara í vítateignum en skaut framhjá markinu. Staðan var því 1:0 í hálfleik.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn vel því á 51. mínútu jöfnuðu þeir metin. Ísak Snær fékk langa sendingu fram völlinn, hristi af sér tvo varnarmenn og skoraði af harðfylgi framhjá markverðinum, 1:1. Þar með var staðan orðin 3:1 samanlagt, Blikunum í hag.

Strax í næstu sókn fékk Buducnost dauðafæri. Petrovic átti skalla af markteig en Anton Ari varði glæsilega í horn.

Dagur Dan Þórhallsson átti góða tilraun á 61. mínútu þegar hann skaut frá hægra vítateigshorni, hárfínt framhjá stönginni nær.

Gísli Eyjólfsson fékk gott færi á 74. mínútu þegar hann skaut frá vítateig og rétt framhjá stönginni hægra megin.

Blikar voru líklegri eftir því sem leið á leikinn. Gísli átti aftur gott skot rétt yfir markið á 79. mínútu og síðan skaut Dagur Dan á tómt markið utan af kanti eftir skógarhlaup markvarðarins en hitti ekki markið.

Á 83. mínútu áttu Blikar góða sókn og Höskuldur Gunnlaugsson náði föstu skoti hægra megin úr vítateignum sem markvörðurinn varði í stöngina.

En það var Buducnost sem skoraði á 86. mínútu þegar Vladan Adzic skoraði með skalla úr markteignum eftir aukaspyrnu frá hægri kantinum, 2:1. Staðan þá 3:2 samanlagt, Blikum í hag.

Þrátt fyrir talsverða pressu heimamanna náðu Blikar að verjast vel á lokamínútunum og í sex mínútna uppbótartíma.

Buducnost 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. 6 mínútum bætt við!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert