Klárlega mest svekkjandi tapið

Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Þetta eru klárlega mest svekkjandi úrslit sumarsins,“ sagði svekktur Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis úr Reykjavík, er mbl.is talaði við hann eftir dramatískt 1:2 tap gegn Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta á Leiknisvellinum í kvöld.

„Þetta var hörkuleikur en ekki alveg fallegasti fótboltinn. Mér fannst aðeins skína í gegn að það var ekki brjálarðslega mikið sjálfstraust í liðinu þessa stundina. Ég hefði viljað sjá okkur halda betur í boltann og spila honum betur á milli okkar. Sérstaklega í fyrri hálfleik þá vildi ég að við ynnum fleiri návígi og seinni bolta og allt það. Þetta var týpískt veður og týpískur leikur sem var að fara að ráðast svolítið af því. 

En Keflvíkingarnir eru rosalega orkumiklir og létu okkur finna fyrir því. Þeir voru bara grimmari en við og sérstaklega í fyrri hálfleik. Mér fannst við bæta það í seinni hálfleik og það var smá kraftur í okkur. Aðallega það sem ég er svekktur með er hvernig við vorum að spila boltanum á milli okkar, það var ekki alveg nógu góður taktur.“ 

Eigum að vinna þessi lið á heimavelli

Leiknir hefur nú tapað þremur leikjum í röð, öllum á þessum velli. Fyrst 0:5 gegn KA og svo 1:4 gegn ÍBV. Sigurður vildi meina að þessi leikur væri bæting frá því, en ekki nægilega mikil.

„Þetta er klárlega bæting frá síðustu tveimur leikjum. En samt finnst mér við vera betra fótboltalið en það sem við sýndum í dag. Þó það hafi verið margt fínt þá finnst mér við vera betri en þetta. Við eigum að vinna þessa heimaleiki á móti þessum liðum sem eru svipuð og við, þó þeir séu svolítið á undan okkur, þá erum við að bera okkur saman við lið eins og Keflavík og mér finnst að við eigum að vinna þessa leiki á heimavelli.“ 

Sigurður þurfti að gera tvær breytingar í fyrri hálfleik. Adam Örn Arnarson og Árni Elvar Árnason fóru af velli fyrir Gyrði Hrafn Guðbrandsson og Sindra Björnsson.

Adam var með smá vesen í náranum fyrir leik en við héldum að það væri ekki slæmt. Við þurftum samt að skipta honum út af og einnig Árna sem fékk eitthvað högg á bakið. Þannig við misstum tvo út af sem riðlar fyrri hálfleiknum sem er leiðinlegt,“ sagði Sigurður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert