Dramatík í Breiðholtinu

Adam Ægir Pálsson snýr í Breiðholtinu í kvöld.
Adam Ægir Pálsson snýr í Breiðholtinu í kvöld. mbl.is/Arnþór

Keflavík vann dramatískan 2:1 sigur á Leikni úr Reykjavík í Bestu deild karla í fótbolta á Leiknisvellinum í Breiðholtinu í kvöld. 

Fyrri hálfleikurinn var heldur tíðindalítill. Bæði lið fengu sín upphlaup en hjá Keflavík voru þau fleiri og betri. Sem dæmi má nefna færið sem Joey Gibbs fékk á 17. mínútu. Þá sneri hann sér í teignum og setti boltann í nærstöngina. 

Leiknismenn þurftu að gera tvær breytingar í fyrri hálfleiknum en nýi maðurinn Adam Örn Arnarson og Árni Elvar Árnason fóru meiddir af velli. Inn á í þeirra stað komu Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Sindri Björnsson.

Á þriðju mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiksins fékk Nacho Heras sendingu frá Sindra Snæ Magnússyni og keyrði upp vinstri kantinn. Hann sendi svo háa sendingu þar sem Patrik Johannesen stökk hæst og stangaði boltann í netið og gestirnir komnir yfir, 1:0. Þetta var það síðasta sem gerðist í fyrri hálfleiknum og það voru því Keflvíkingarnir sem fóru með 1:0 forystu til búningsklefa. 

Daninn Zean Dalügge jafnaði svo metin fyrir Leiknismenn, í sínum fyrsta leik. þegar rúmt korter var liðið af síðari hálfleik. Þá fékk hann glæsilega sendingu inn fyrir frá Degi Austmanni Hilmarssyni og kláraði færið laglega framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í markinu, 1:1 og heimamenn búnir að jafna. 

Sá danski gerði sig aftur líklegan fimm mínútum síðar. Þá sendi Dagur háan bolta inn í teiginn á Dalügge sem var við það að snúa boltanum í netið en Sindri Kristinn varði glæsilega af honum og í horn. 

Það sem eftir var leiks fengu bæði lið ágætis færi og þá aðallega heimamenn en inn vildi boltinn ekki. 

En á 91. mínútu sendi Gyrðir Hrafn glórulausa sendingu beint í fætur á Frans Elvarssyni sem renndi boltanum í netið framhjá Viktori Frey Sigurðssyni, 2:1 fyrir Keflvíkingum sem stálu sigrinum í blálokin. 

Með sigrinum fer Keflavík upp í sjöunda sætið með 21 stig. Leiknir er enn í næstneðsta sæti með 10 stig.

Leiknir fer í heimsókn í Úlfarsársdal og mætir Fram í næsta leik sínum. Keflavík fær KR-inga í heimsókn í næsta leik sínum. 

Leiknir R. 1:2 Keflavík opna loka
90. mín. Frans Elvarsson (Keflavík) skorar +1 1:2 - HA!? Gyrðir Hrafn sendir bara boltinn fyrir Frans Elvarson sem setur boltann í fyrsta í netið, glórulaus ákvörðun hjá Gyrði. Þvílík dramatík hér í Breiðholtinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert