Öruggur sigur Valskvenna þrátt fyrir agaða Keflvíkinga

Kristrún Ýr Holm og Ída Marín Hermannsdóttir eigast við.
Kristrún Ýr Holm og Ída Marín Hermannsdóttir eigast við. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef Valskonur ætluðu að bæta markahlutafall sitt þegar þær sóttu Keflavík heim í kvöld þá var það ekki að gerast gegn öguðum varnarleik Keflvíkinga, allt þar til í síðari hálfleik og Valur vann öruggan 5:0 sigur þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta.  Það segir sínu sögu að Valur átti 21 skot en Keflavík tvö.

Gestirnir frá Hlíðarenda smelltu strax í sóknarleik og hikuðu ekki við að skjóta þegar þeir nálguðust mark Keflvíkinga.  Fyrst mark Vals var þó sjálfsmark eftir hornspyrnu þegar boltinn datt á kollinn á Snædísi Maríu Jörundsdóttir á 14. mínútu, staðan 0:1.   Á 24. mínútu kom næsta mark þegar Cyera Hintzen skoraði úr miðjum markteignum með hnitmiðuðu skot í hægra hornið eftir sendingu Sólveigu J. Larsen.  Þó Keflvíkinga kæmust upp völlinn skapaðist aldrei nein hætta því varnarmenn Vals eða Sandra í markinu voru með þetta.   Þrátt fyrir mörg langskot og tilraunir til að finna glufur í vörn Keflvíkinga tókst Valskonum ekki bæta við mörkum fyrir hlé, það er ekki annað hægt að hrósa baráttu og skynsemi fyrir það.

Valskonur héldu áfram að skjóta í seinni hálfleik en nú var það gegn vindi og ekki mikil hætta á ferð svo þá var bara að spila sig í gegnum vörn heimakvenna en þær voru fastar fyrir.   Vörnin brást þó á 63. mínútu þegar Elín Metta Jensen, nýkominn inn af bekknum, komst ein á móti Samönthu í markinu og vippaði boltanum yfir hana.   Á 68. mínútu kom næsta mark þegar skot eða fyrirgjöf Önnu Rakel Pétursdóttur komst á bak við Samönthu í markinu og í markið rétt við stöngina, staðan 0:4.   Valur hafði þegar hér var komið skipt inná öllum fimm varamönnum sínum og skerpt á sókninni.   Annar varamaður, Bryndís Arna Níelsdóttir, innsiglaði svo 5:0 sigur Vals þegar boltinn fór í gegnum þvögu á markteigslínu og Bryndís Arna alein þrumaði boltanum í þaknetið á 82. mínútu.

Keflavíkurkonur börðust og héldum góðum varnarlínum rétt utan vítateigs en það dugði ekki til því Valskonur voru mjög ákveðnar, hikuðu ekki við að skjóta á markið en gekk ekki eins vel að þræða sig í gegnum vörn Keflavíkur.   Sjálfir reyndu Keflvíkingar að sækja en það var ekki mikil ákefð í því enda hafði vörn Vals öll völd þar.

Eftir leikinn er Keflavík enn í 7. sæti deildarinnar með 10, eins og Þór/KA, Afturelding er í 9. sætin með 9 stig og KR á botninum með 7 stig.  Það má því alveg segja að Keflavík er engan vegin laus við falldrauginn en þá gæti markahlutfallið skipt sköpum.   Næsti leikur Keflavíkurkvenna í deildinni er gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum.

Valur aftur á móti er á toppnum með 32 stig en með Blika á hælunum – 5 leikir eftir og nóg af stigum í pottinum – og mæta í næsta deildarleik KR í Vesturbænum.

Keflavík 0:5 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert