Blika spýttu í lófana og unnu ÍBV

Úr leik liðanna í dag.
Úr leik liðanna í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Baráttuglaðir Eyjamenn ætluðu ekki að gefa neitt þegar þeir mættu Breiðablik í Kópavoginum í dag og það dugði fram í síðari hálfleik, þá tóku Blikar gott viðbragð með þremur mörkum 20 mínútum svo að ballið var eiginlega búið og 3:0 sigur Breiðabliks tryggir þeim efsta sætið eftir þessa 22 leiki.

Fyrstu mínúturnar voru Blikar í basli, virkuðu óöruggir á meðan Eyjamenn pressuðu stíft  - svo vel að Anton Ari Einarsson markvörður Breiðabliks þurfti að sparka boltanum aftur fyrir markið undir stífri pressu. 

Áður en tíu mínútur voru liðnar voru Blikar búnir að ná vopnum sínum og farnir að byggja upp góðar sóknir en eins og hjá gestunum vantaði að búa til dauðafæri eða bara mörk.  Vestmannaeyingar voru samt ekki hættir, náðu að komast aftur inní leikinn og þá duglegir að sækja með þunga. 

Það var því nokkuð um ágætar sóknir, minna um miðjumoð en þegar hálfleikurinn var hálfnaður voru liðin búin að fóta sig og baráttan var mest um boltann á miðjunni.  Fyrsta alvöru góða færið kom síðan á 30. mínútu eftir góða og vel útfærða sókn Blika en Gísla Eyjólfssyni tókst að skjóta yfir af stuttu færi.  Hér átti að gera betur.   

Rétt fyrir leikhlé fékk Dagur Dan Þórhallsson tvö færi til að skora,  fyrra eftir frábæra sendingu Jason Daða Svanþórssonar og Guðjón Orri Sigurðsson varði markmaður ÍBV af stuttu færi en hélt ekki boltanum svo Dagur Dan fékk aðra tilraun en nú hirti Guðjón Orri boltann af stuttu færi.

Á 48. mínútu gekk síðan sókn Blika upp þegar varnarmaðurinn Andri Yeoman fór upp vinstri kantinn  á miðri markteigslínu stökk Jason Daði upp og skoraði af öryggi, staðan 1:0.  Markið virtist kveikja rækilega í Blikum og sóknir þeirra urðu sífellt hættulegri, það vantaði samt aðeins uppá þegar þeir reyndu að pota sér í gegnum vörn gestanna.    

Gestirnir fengu þó fær en skot Andra Hrafns Atlasonar rétt utan vítateigs á 61. mínútu fór rétt framhjá og þremur mínútum síðar átti Telmo Castanheira gott skot af vítateigslínunni, sem Anton Ari í marki Breiðabliks varði vel.   

Svo kom að Blikum aftur og nú skoraði Dagur Dan með hnitmiðuðu skoti vinstra megin úr teignum á 65. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Jason Daði þegar hann lék á markmann ÍBV og skoraði í autt markið eftir frábæra stungusendingu Dags Dan inn fyrir vörn gestanna, staðan frekar skyndilega orðin 3:0.  Ef eitthvað er þá drógu Blikar sig aftar og lögðu áherslu á að halda boltanum.

Þá er það ljóst, Breiðablik er með flest stig að loknum þessum hluta mótsins og mun mæta Stjörnunni á heimavelli þegar efrihlutakeppnin hefst eftir tvær vikur.  ÍBV er í níunda sæti og á því heimaleik gegn FH í fyrstu umferðinni í neðri hlutanum en Eyjamenn eru nú aðeins stigi fyrir ofan fallsæti.

Breiðablik 3:0 ÍBV opna loka
90. mín. Skiltið komið upp, 3 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert