Gott að púsla saman tveimur sigurleikjum

Stefán Ingi Sigurðarson í baráttu við Sindra Þór Ingimarsson í …
Stefán Ingi Sigurðarson í baráttu við Sindra Þór Ingimarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Stefán Ingi Sigurðarson komst á blað í sjötta sinn í fimm leikjum í Bestu deildinni í knattspyrnu á tímabilinu þegar hann skoraði síðara mark Breiðabliks í 2:0-sigri á Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

„Við vorum kannski með meiri tök á leiknum í lokin á seinni hálfleik. Þeir voru svona aðeins með okkur ýtta niður í fyrri hálfleik þegar við vorum komnir í 2:0.

Það svo sem skapaðist ekkert gríðarleg hætta en við þurfum kannski að ná að ýta aðeins ofar á þá, ná pressunni aðeins fyrr svo þeir nái ekki að ýta okkur svona niður. En ég er fyrst og fremst gríðarlega ánægður með 2:0-sigur og að halda hreinu,“ sagði Stefán Ingi í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann skoraði gott skallamark á elleftu mínútu leiksins og fékk svo sannkallað dauðafæri skömmu fyrir leikhlé en skaut framhjá. Stefán Ingi var sáttur við að komast aftur á blað.

„Já, já en það eru fyrst og fremst þrjú stig, það er það sem maður er aðallega sáttur með. Það er gaman að skora. Mörkin hefðu átt að vera tvö en svona er þetta stundum,“ sagði hann.

Stefán Ingi lék stærstan hluta leiksins á vinstri vængnum en var þrátt fyrir það gjarna manna fremstur hjá Blikum í uppspilinu í útgáfu liðsins af 4-3-3 leikkerfinu. Hann er hreinræktaður framherji að upplagi en kann þó vel við sig á vængnum.

„Það er bara fínt. Ég var kannski aðeins meira á kantinum fyrst að ég náði ekki pressunni alveg jafn vel og ég hefði átt að ná. Þá ýtist ég aðeins utar í stað þess að vera innarlega.

En ég hef náttúrlega spilað þessa stöðu í byrjun tímabils og í allan vetur og líkar það mjög vel. Þegar við erum að sækja get ég komið inn á völlinn og verið meiri „striker“ en svo er ég líka að halda breidd þegar við erum ekki komnir svo ofarlega á völlinn,“ sagði Stefán Ingi um leikstöðuna.

Breiðablik er nú í fjórða sæti með níu stig eftir fimm leiki og hefur unnið tvo leiki í röð.

„Það er gott að púsla saman tveimur sigurleikjum og svo er það næsti leikur, við ætlum að taka þrjú stig þar líka. Það er bara að halda áfram því nú þurfum við að safna stigum, það er alveg klárt mál,“ sagði sóknarmaðurinn öflugi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert