Góð barátta Fylkis dugði ekki til og Blikar unnu með sjálfsmarki

Blikar fagna sigurmarkinu í kvöld.
Blikar fagna sigurmarkinu í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Nýliðar Fylkis sýndu meisturum í Breiðabliki litla virðingu þegar liðin mættust í síðasta leik 6. umferðar efstu deildar karla í Árbænum í kvöld en urðu að sætta sig við 1:2-tap með sjálfsmarki á 85. mínútu.  

Það var ekki mikið um færi lengi vel en þeim mun meiri barátta þar sem Blikar sóttu meira, helst að Ólafur Karl Finsen átti gott skot að marki Blika á 25. mínútu en það var varið.

Á 27. mínútu kom síðan fyrsta markið þegar Klæmit Olsen skutlaði sér inn í markteig til að stýra fyrirgjöf Jasons Daða Svanþórssonar frá hægri kanti í vinstra hornið.  Þetta var gott mark og Klæmit uppskar fyrir að gefa allt sitt í að ná til boltans.

Adam var ekki lengi í paradís því á 31. mínútu eftir þriðju hornspyrnu Fylkis náði Ólafur Karl Finsen að stökkva hæst á vinstri markteigslínu og skallaði inn horn Óskars Borgþórssonar frá vinstri og var staðan þá jöfn, 1:1.

Fátt var um fína drætti eftir það og jafnræði með liðunum því nýliðarnir í Fylki voru komnir með sjálfstraustið og sóttu stíft en Blikar sátu ekki auðum höndum og áttu sínar sóknir.

Gísli Eyjólfsson með boltann í kvöld. Ragnar Bragi Sveinsson fylgist …
Gísli Eyjólfsson með boltann í kvöld. Ragnar Bragi Sveinsson fylgist með. mbl.is/Hákon Pálsson

Tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar fyrsta færið kom en þá slapp Þórður Gunnar Hafþórsson einn að markinu eftir mistök í vörn Breiðabliks en skot hans fór rétt fram hjá stönginni.  Þetta var frábært færi og var slappt að skora ekki.

Síðan leið og beið, leikmenn virtust frekar hugsa um að halda sínu en helst væri að Árbæingar næðu að skapa hættu við mark gestanna – það var hins vegar tvíeggjað sverð því Blikar voru snöggir fram en náðu samt ekki að nýta sér það.

Síðasta korterið þyngdu Blikar sóknir sínar og mark lá í loftinu en hékk þar því Ólafur Kristófer markvörður Fylkis varði glæsilega skallabolta Ágústs Eðvald Hlynssonar af stuttu færi á 82. mínútu.

Stefán Ingi Sigurðarson, Höskuldur Gunnlaugsson og Orri Sveinn Stefánsson eigast …
Stefán Ingi Sigurðarson, Höskuldur Gunnlaugsson og Orri Sveinn Stefánsson eigast við í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Eitthvað varð undan að láta og á 85. mínútu kom svo rothögg fyrir Fylki en þurfti sjálfsmark til því Nikulás Val Gunnarsson skoraði sjálfsmark eftir hornspyrnu Höskulds fyrirliða Gunnlaugssonar. 

Fylkismenn voru vissulega viljugir en aðeins of seinir í sóknina því Blikar voru snöggir aftur og lokuðu flestum leiðum að marki sínu.  Blikar voru með þyngri sóknir, fleiri tóku þátt í þeim og meiri hætta þeim megin en Fylkismenn köstuðu sér fyrir alla bolta.

Fylkir er því eftir sem áður á botni deildarinnar og Blikar í þriðja sætinu.

Í næstu umferð fær Fylkir granna sína úr Fram í heimsókn og Blikar fara í Vesturbæinn til KR.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fylkir 1:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Fylkir fær hornspyrnu Fjórum mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert